Viðskipti innlent

Heildar­far­þega­fjöldinn 18 þúsund í júní

Atli Ísleifsson skrifar
Heildarframboð Icelandair minnkaði um 96% á milli ára.
Heildarframboð Icelandair minnkaði um 96% á milli ára. Vísir/Vilhelm

Heildarfjöldi farþega hjá Icelandair í júní var rúmlega 18 þúsund samanborið við um 553 þúsund á sama tíma í fyrra. Er því um að ræða 97 prósent samdrátt á milli ára.

Þetta kemur fram í tilkynningu Icelandair til Kauphallarinnar í gær. „Þetta er þó töluverð aukning frá því í maí þegar heildarfjöldi farþega var aðeins um þrjú þúsund. Heildarframboð minnkaði um 96% á milli ára.

Fjöldi farþega hjá Air Iceland Connect var um 12 þúsund í júnímánuði og fækkaði um 52% á milli ára. Framboð minnkaði um 63%.“

Icelandair hóf að auka áætlunarflug á ný um miðjan síðasta mánuð þegar aflétting ferðatakmarkana hófst í Evrópu. Segir í tilkynningunni að félagið hafi lagt áherslu á að halda uppi lágmarksflugsamgöngum til og frá landinu undanfarnar vikur og mánuði og jafnframt tryggt fraktflutninga sem hafa dregist mun minna saman en farþegaflug á tímabilinu.

„Seldir blokktímar í leiguflugstarfsemi félagsins drógust saman um 66% á milli ára í júní. Flutningastarfsemi félagsins gekk vel í júnímánuði og drógust fraktflutningar aðeins saman um 9% á milli ára. Samdrætti í farþegaflugi hefur verið mætt með auknum ferðum fraktvéla félagsins bæði til Bandaríkjanna og Evrópu,“ segir í tilkynningunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×