Innlent

Hanna tunglhíbýli í Hallmundarhrauni

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Hér má sjá hluta teymisins með fána Geimferðastofnunar Evrópu.
Hér má sjá hluta teymisins með fána Geimferðastofnunar Evrópu. Vísir/Sigurjón

Vísindamenn á vegum Evrópsku geimvísindastofnunarinnar hafa unnið að uppbyggingu og hönnun tunglhíbýlis í Stefánshelli í Hallmundarhrauni í vikunni. Markmiðið er að hanna tímabundinn dvalarstað fyrir tunglfara.

„Við erum að setja saman tunglhíbýli, eða ígildi þess, inni í hraunhelli hér á Íslandi. Þetta opnar á nýja rannsóknarmöguleika þar sem við fáum að starfa í ósnortnu umhverfi, rétt eins og á tunglinu. Þetta er eins konar undirbúningur áður en farið er til tunglsins eða Mars,“ segir Marc Heemskerk, einn vísindamannanna. 

Verkefnið nefnist EuroMoonMars CHILL-ICE og er unnið í samstarfi við Geimvísinda- og tækniskrifstofuna og Iceland Space Agency. Hópurinn kemur aftur til landsins á næsta ári en þá stendur meðal annars til að láta tvo geimfara setja híbýlið saman í geimbúningunum. 

Að sögn Charlotte Pouwels hefur einnig verið leitað til Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík: „Þeir ætla að senda nemendur til þátttöku. Vera til dæmis með námskeið eða verkefni sem við sjáum um að hanna.“

Teymið leitar nú einnig til íslenskra listamanna vegna verkefnis sem kallast MoonGallery. Að sögn Pouwels eru tuttugu og sjö pláss laus eins og stendur.

„Þetta gallerí er agnarsmátt. Um tíu sinnum tíu sentímetrar og inni í því eru hundrað afmarkaðir fersentímetrar. Þarna gætirðu verið með þitt eigið listaverk og það verður komið til tunglsins í síðasta lagi 2022. Þannig geta listamenn og almenningur í raun sent hluta af sér til tunglsins,“ segir Heemskerk.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×