Golf

Mickelson efstur eftir tvo daga á Travelers | Rory meðal efstu manna

Ísak Hallmundarson skrifar
Phil Mickelson lætur aldurinn ekki stoppa sig og heldur áfram að spila golf í hæsta gæðaflokki.
Phil Mickelson lætur aldurinn ekki stoppa sig og heldur áfram að spila golf í hæsta gæðaflokki. getty/Elsa

Phil Mickelson, einn besti golfari heims og fimmfaldur sigurvegari á risamótum, er efstur eftir tvo hringi á Travelers-mótinu. Mótið er hluti af PGA-mótaröðinni.

Mickelson er nýorðinn fimmtugur en hann er á samtals 13 höggum undir pari. Hann lék fyrsta hringinn á 6 höggum undir pari í gær og fylgdi því eftir í dag með því að leika á 7 höggum undir pari eða 63 höggum. 

Hann byrjaði á því að fá skolla á 2. braut og var tveimur höggum undir pari eftir fyrstu níu holurnar í dag. Hann náði síðan góðum spretti og var fjórum undir á síðustu sex holunum, fékk þrjá fugla í röð á 13.-15. braut og endaði 18. holu á fugli. 

Jafnir í 2. sæti eru Will Gordon og Mackenzie Hughes, sem eru á 12 höggum undir pari. Hughes var efstur eftir gærdaginn en hann átti stórkostlegan fyrsta hring sem hann lék á tíu höggum undir pari. 

Fimm leikmenn eru síðan jafnir í 4. sætinu á níu höggum undir pari. Einn af þeim er Rory McIlroy, sá sem er efstur á heimslistanum, en hann lék fyrsta hringinn á sjö höggum undir pari og í dag lék hann á tveimur undir. 

Síðustu tveir dagar mótsins verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Golf um helgina og hefst útsending kl. 17 bæði laugardag og sunnudag. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.