Viðskipti innlent

Hlé á gjald­eyris­kaupum fram­lengt til 17. septem­ber

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Seðlabankinn
Seðlabankinn Vísir/Vilhelm

Hlé á gjaldeyriskaupum lífeyrissjóða til erlendra fjárfestinga hefur verið framlengt til 17. september næstkomandi en það var sett á 17. mars síðastliðinn. Ákvörðunin var tekin í samráði við Seðlabanka Íslands til að bregðast við miklum samdrætti útflutningstekna af völdum kórónuveirufaraldursins og mögulegum þrýstingi á gengi krónunnar vegna hans að því er fram kemur í tilkynningu frá Seðlabankanum.

Fram kemur að ljóst sé að hléð hafi gengt veigamiklu hlutverki í að viðhalda þjóðhagslegum stöðugleika í gegnum þær holskeflur sem skollið hafa á þjóðarskútunni síðustu þrjá mánuði. Þá sýni lífeyrissjóðirnir með framlengdu hléi stuðning sinn í verki við að stuðla að stöðugleika á gjaldeyrismarkaði.

„Undanfarin ár hefur Ísland breyst úr því að vera fjármagnsinnflytjandi með þrálátan viðskiptahalla í fjármagnsútflytjanda með drjúgan viðskiptaafgang. Þessi viðsnúningur stafar að miklu leyti af þeim sparnaði sem verður jafnt og þétt til í lífeyriskerfinu og hefur skapað nýjar forsendur til þess að viðhalda þjóðhagslegum stöðugleika. Það hefur sannarlega komið landinu til góða á síðustu mánuðum,“ stendur í tilkynningunni.

Þá er það áréttað að erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna séu mjög mikilvægar þegar horft er fram á veginn hvort sem litið sé til hagsmuna sjóðfélaga eða þjóðarinnar í heild. Þær feli í sér áhættudreifingu lífeyriseigna og komi í veg fyrir neikvæð áhrif á útgreiðslu lífeyris á íslenskt hagkerfi í framtíðinni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×