Viðskipti innlent

Skoða hvort stjórnar­seta Evu Bryn­dísar hjá Högum brjóti gegn sátt Sam­keppnis­eftir­litsins

Andri Eysteinsson skrifar
Hagkaup er í eigu Haga.
Hagkaup er í eigu Haga. Vísir/Vilhelm

Samkeppniseftirlitið mun nú taka til skoðunar hvort seta Evu Bryndísar Helgadóttur í stjórn Haga brjóti gegn ákvæðum sáttar eftirlitsins og Haga frá 11. september 2018 sem undirrituð var vegna kaupa Haga hf. á Olíuverzlun Íslands hf. Frá þessu er greint á vef Samkeppniseftirlitsins.

Markmið áðurnefndrar sáttar var að vinna gegn skaðlegum áhrifum af sameiginlegu eignarhaldi á fyrirtækjum og í 22. grein sáttarinnar er m.a. mælt fyrir um samkeppnislegt sjálfstæði stjórnar Haga og í 21. gr. er fjallað um óhæði stjórnarmanna Olíudreifingar hf. gagnvart Högum.

Ný stjórn Haga var kjörin á aðalfundi félagsins í dag 9. júní og var Eva Bryndís Helgadóttir ein þeirra sem náði kjöri í stjórn Haga. Eva Bryndís hefur áður gegnt embætti stjórnarformanns Olíudreifingar hf. og var enn skráður stjórnarformaður félagsins. Hagar höfðu 5. júní sl. tilkynnt að stjórnarkjör færi fram og að Eva Bryndís væri á meðal frambjóðenda til stjórnar.

Taldi Samkeppniseftirlitið því rétt að vekja athygli Haga á því að það gengi gegn ákvæðum sáttarinnar ef sami einstaklingur sæti í stjórn Haga og Olíudreifingar. Þó svo að ef Eva næði kjöri og myndi segja af sér embætti hjá Olíudreifingu kæmi engu að síður til alvarlegrar skoðunar hvort seta hennar í stjórn Haga fæli í sér hættu á að viðkvæmar upplýsingar bærust milli fyrirtækja í andstöðu við sáttina.

Skömmu fyrir aðalfundinn sem haldinn var fyrr í dag var óskað eftir því af hálfu Haga að staðfesting bærist frá Samkeppniseftirlitinu um að ekki yrði gerð athugasemd við það að stjórnarkjör færi fram. Var brugðist skjótt við beiðninni og áréttað að kæmi til þess að eftirlitið teldi Evu Bryndísi ekki hæfa til setu í stjórn Haga vegna fyrri starfa hjá Olíudreifingu myndi það ekki leiða til sektarákvörðunar ef Hagar myndu bregðast við og kjósa nýjan einstakling í stjórn félagsins.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×