Aðstoðarríkissaksóknari í Namibíu er sagður búast við handtökum á Íslandi í rannsókn á mútumáli sem íslenska sjávarútvegfyrirtækið Samherji er sakaður um að tengjast. Dómari veitti saksóknurum lengri tíma til að rannsaka málið í dag.
Sex fyrrverandi ráðherrar og einstaklingar þeim tengdir hafa verið handteknir í Namibíu, grunaðir um fjársvik og mútuþægni. Samherji hefur verið sakaður um að greiða mútur til að komast yfir kvóta í Afríkulandinu.
Meðferð málsins fyrir dómstólum hefur verið frestað eftir að saksóknarar sögðust þurfa lengri tíma til að rannsaka það. Ed Marondedze, aðstoðarríkissaksóknari í Namibíu, sagði að rannsókn stæði yfir í nokkrum löndum, þar á meðal Íslandi. Hann búist við frekari handtökum á Íslandi og í Angóla, að sögn vefmiðilsins Namibian Sun.
Namibísk yfirvöld hafa óskað eftir aðstoð héraðssaksóknara á Íslandi við rannsókn málsins. Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, vildi ekki tjá sig frekar um um eðli réttarbeiðna frá Namibíu við Vísi í síðustu viku en að þær væru í vinnslu hjá embættinu.