Viðskipti innlent

Samstaða í hópnum og fundi slitið með dynjandi lófaklappi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Flugfreyjur stilla saman strengi á einum af fjórum fundum sínum í dag.
Flugfreyjur stilla saman strengi á einum af fjórum fundum sínum í dag. Vísir/Vilhelm

Þriðji fundur flugfreyja þar sem samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands fer yfir stöðu mála og svarar spurningum félagsmanna stendur nú yfir á Hilton hóteli. Boðið var upp á fjóra fundi í dag svo allar flugfreyjur gætu sótt fundinn vegan samkomutakmarkana.

Fulltrúi fréttastofu sem var á Hilton á öðrum tímanum þegar fundi númer tvö lauk lýsti því hvernig honum hefði lokið með dynjandi lófaklappi.

Þær flugfreyjur sem fréttastofa hefur rætt við lýsa mikilli samstöðu hjá félaginu í viðræðunum við Icelandair. Í frétt Vísis fyrr í dag kom fram að ekki stæði til að ræða svokallað „lokatilboð“ Icelandair á fundinum í dag heldur yrði áherslan á tilboð flugfreyja til félagsins. Var vísað í svör fulltrúa samninganefndar í lokuðum hópi flugfreyja í gær.

Flugfreyjur sem fréttastofa hefur rætt við segja þó að spurningum varðandi tilboð Icelandair hafi verið svarað að einhverju leyti á fundunum í dag. Samningarnir eru þó flóknir og margar spurningar sem brenna á hópnum. Þá sé ekki hægt að fullyrða nákvæmlega um annað en það sem viðkomandi flugfreyja heyrði á þeim fundi sem hún sótti.

Samstöðukaka og vatn á borði samninganefndarinnar.Vísir/Vilhelm

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, tjáði fulltrúa fréttastofu eftir hádegið í dag að þótt enginn fundur væri boðaður í deilunni væri samninganefndin á fullu við vinnu sína.

Síðasti fundur flugfreyja á Hilton Nordica-hótelinu hefst klukkan 16 í dag. Á sama tíma hefst hluthafafundur Icelandair á sama stað í öðrum sal.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×