Handbolti

Guðmundur: Við þurfum að skoða frammistöðu okkar vel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Ísland tapaði illa fyrir Ungverjalandi í lokaleik sínum í riðlakeppni EM í handbolta, 24-18. Eftir fínan fyrri hálfleik datt allur botn úr leik Íslands í þeim síðari og skoraði Ísland aðeins eitt mark á síðustu sautján mínútum leiksins.

„Ég var mjög ánægður með fyrri hálfleikinn, þar sem okkur tekst að spila frábæran handbolta í vörn og sókn. Þeir skoruðu aðeins níu mörk í fyrri hálfleiknum og ákefðin okkur var fín. Ég hefði þó viljað fara inn í seinni hálfleikinn með fimm marka forystu - það hefði breytt miklu,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

„Við komumst svo ágætlega af stað í seinni hálfleik en förum þó illa með nokkur dauðafæri. Svo kemur afspyrnuslakur kafli í seinni hálfleik sem endar með að þeir komast yfir. Við gáfum svo eftir í vörninni okkar síðustu 20 mínútur leiksins. Það vantaði grimmd og að við kæmum framar í vörninni.“

Hann segir að frammistaða línumannsins Bence Banhidi, sem skoraði átta mörk úr tíu skotum, hafi gert útslagið. „Hann gerði í raun út um leikinn en það breytir því ekki að síðustu 20 mínúturnar okkar voru mjög slakar. Við skoruðum aðeins sex mörk í seinni hálfleik og klúðrum fjórum vítum í leiknum. Það er ekki gott.“

Guðmundur segir að það sé ekki mikill tími til að dvelja við þetta tap en hann vilji þó skoða frammistöðu Íslands vel áður en lengra er haldið.

„Sérstaklega frammistöðuna í seinni hálfleik. Við vorum frábærir eftir leikhléið sem við tókum í fyrri hálfleik en svo gerist eitthvað í síðari hálfleik sem við þurfum að skoða vel, áður en við hugsum um næsta andstæðing og skoðum hann. Það er vissulega stutt á milli leikja en svona er þetta bara.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.