Atvinnulíf

Rúmur þriðjungur hugar að frekari samdráttaraðgerðum og breytt viðhorf til fjarvinnu

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Tómas Bjarnason forstöðumaður mannauðsrannsókna hjá Gallup, Marta Gall Jörgensen ráðgjafi hjá Gallup og Sóley Kristjánsdóttir ráðgjafi hjá Gallup.
Tómas Bjarnason forstöðumaður mannauðsrannsókna hjá Gallup, Marta Gall Jörgensen ráðgjafi hjá Gallup og Sóley Kristjánsdóttir ráðgjafi hjá Gallup. Vísir/Vilhelm

Í mars og apríl stóð Gallup fyrir tveimur sambærilegum könnunum fyrir félag mannauðsfólks á Íslandi, Mannauð, þar sem spurt var um ýmiss mannauðstengd mál í tengslum við kórónufaraldurinn og horfurnar framundan. Undirbúningur vinnustaðanna undir rýmkun samkomubanns hefur almennt gengið vel og mannauðsfólk hefur almennt skoðað ítarlega hvað þarf að gera svo að vinnustaðurinn geti tekið á móti starfsfólki þannig að öllum reglum sé fylgt og heilsa og öryggi starfsfólks sé tryggð.

Þá eru flestir svarendur ánægðir með hvernig til tókst með fjarvinnu en gera þó ráð fyrir að draga nokkuð úr henni nú þegar samkomubanni er lokið. 

Af þeim vinnustöðum sem gripið hafa til samdráttaraðgerða gerir rúmur þriðjungur ráð fyrir að fara í frekari samdráttaraðgerðir.

Í dag er Alþjóðlegi mannauðsdagurinn og af því tilefni mun Atvinnulífið á Vísi fjalla um mannauðsmál frá ýmsum hliðum í dag, s.s. niðurstöður úr könnunum, strauma og stefnur og lærdóm þeirra sem staðið hafa í mikilli breytingastjórnun.

Í þessari fyrstu grein af þremur leiða Tómas Bjarnason sviðsstjóri mannauðsrannsókna og -ráðgjafar hjá Gallup, Marta Gall Jörgensen ráðgjafi hjá Gallup og Sóley Kristjánsdóttir ráðgjafi hjá Gallup okkur í gegnum athyglisverðustu atriðin í fyrrgreindum könnunum.

Flestir vinnustaðir í könnuninni eru í framleiðslustarfsemi ýmiskonar, þá opinberri stjórnsýslu og svo verslun og þjónustu, fjarskiptum fjölmiðlum.

Í niðurstöðunum sem hér er farið yfir er aðeins unnið með svör mannauðsstjóra og mannauðssérfræðinga.

Samdráttaraðgerðir framundan

Tómas Bjarnason forstöðumaður mannauðsrannsókna hjá GallupVísir/Vilhelm

Að sögn Tómasar Bjarnasonar kom það nokkuð á óvart í niðurstöðum að einkageirinn ber sig nokkuð vel rekstrarlega og í raun mun betur en þau áttu von á.

„Helmingur svarenda í einkageiranum segir að rekstur vinnustaðarins gangi vel en fimmtungur illa,“ segir Tómas en þó megi sjá á niðurstöðum að staðan er mjög ólík á milli vinnustaða.

Sumir vinnustaðir ganga vel og sjá fram á enn betri stöðu eftir 6 mánuði, en aðrir ganga ekki vel og sjá heldur ekki fram á batnandi horfur,“ 

segir Tómas en bætir við „Könnunin sýnir þó einnig að tímabil samdráttaraðgerða er langt frá því lokið, því þriðjungur þeirra sem hafa þegar gripið til aðgerða segir að frekari samdráttaraðgerða sé þörf.“

„Þess ber að geta að það er þekkt að ýmiskonar mannaflatengdar samdráttaraðgerðir, eins og uppsagnir, launalækkanir og lækkun starfshlutfalls, hafa neikvæð áhrif á viðhorf og framlag starfsfólks og því er gríðarlega mikilvægt að framkvæmd þeirra sé vönduð: Starfsfólk sé vel upplýst, samráð sé haft eins og hægt er, aðgerðir séu eins sanngjarnar og hægt er og í samræmi við aðstæður. 

Þá er mikilvægt að huga vel að hópnum eftir að uppsagnir hafa orðið og að þeim sem er sagt upp sé veitt aðstoð, sé það mögulegt. 

Flestir stjórnendur þekkja þessi neikvæðu áhrif samdráttaraðgerða og fara því varlega í slíkt að öllu jöfnu,“ segir Tómas.

Að sögn Tómasar höfðu vinnustaðir farið í mjög margháttaðar samdráttaraðgerðir, allt frá niðurskurði á fræðslu í uppsagnir, en að hlutastarfaleiðin hafi verið notuð í meira mæli en niðurstöður könnunar frá í mars gáfu fyrst til kynna. Að hans mati skýrist það þó trúlega af því að hlutastarfaleiðin var ekki kynnt fyrr en 21.mars.

Í flestum tilvikum segjast svarendur núna vera að beita samdráttaraðgerðum í enn meira mæli en tölurnar í mars gáfu til kynna. Þetta á sérstaklega við um lækkun starfshlutfalls,“ 

segir Tómas og bætir við „Á móti kemur að sumar aðrar aðgerðir sem voru í undirbúningi í mars virðast hafa verið aðeins minna notaðar.“

Tómas segir mikinn mun á milli geira og atvinnugreina með hvaða hætti verið er að grípa til samdráttaraðgerða. Hið opinbera er til dæmis almennt ekki að beita launalækkunum án samsvarandi lækkun starfshlutfalls.

„Í apríl könnuninni kom fram að einkageirinn er að beita lækkun starfshlutfalls, launafrystingu, ráðningarbanni og uppsögnum í mun meira mæli en sá opinberi. 

Til viðbótar var tæpur fimmtungur vinnustaða í einkageiranum að undirbúa uppsagnir en 5% í þeim opinbera,“ 

segir Tómas.

Viðhorf til fjarvinnu að breytast

Marta Gall Jörgensen ráðgjafi hjá Gallup.Vísir/Vilhelm

Marta Gall Jörgensen segir niðurstöðurnar sýna að langflestir vinnustaðir félagsmanna Mannauðs hafi nýtt fjarvinnu síðustu vikur þótt eðlilega sé munur á hversu margir á vinnustaðnum séu í fjarvinnu. Það fari alveg eftir starfseminni. Þá segir hún athyglisvert hversu margir mannauðsstjórar og -sérfræðingar segja að faraldurinn hafi ýtt undir tæknivæðingu vinnustaða og nýtingu tækninnar og að viðhorf fólks til fjarvinnu sé jákvæðara en áður.

Að sögn Mörtu er hægt að merkja viðhorfsbreytingu gagnvart fjarvinnu.

Viðhorf til fjarvinnu hefur stundum verið svolítið neikvætt og sú mýta algeng af fólk afkasti minna í fjarvinnu. 

Hún telur að það verði mjög áhugavert að fylgjast með hvernig þetta þróast, hvort að vinnustaðir og stjórnendur vilji fá fólkið sitt til baka sem fyrst, eða séu tilbúnari núna en áður að gefa starfsfólki meira frelsi og sjálfstæði til að vinna störf sín annarstaðar en á vinnustaðnum. Vísbendingar séu um að viðhorf til fjarvinnu sé að verða jákvæðara.

Margir mannauðsstjórar og -sérfræðingar telja afköst meiri í fjarvinnu vegna þess að hún byður oft upp á betra næði og markvissari nýtingu tímans.

Í könnun sem við gerðum meðal starfandi fólks á Íslandi taldi meirihlutinn, eða 63%, jákvætt að vinna fjarvinnu og einungis 13% töldu það neikvætt.

Eins sögðu flestir, eða tæp 80%, afköst sín betri eða svipuð í fjarvinnu.

Þá sjá margir jákvæð áhrif af fjarvinnu á líðan fólks, til dæmis að hún stuðli að betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs þar sem fólk hefur meira svigrúm og sveigjanleika til að mæta kröfum í vinnu og einkalífi,“ segir Marta.

Marta segir einnig áhugavert að sjá hversu margir segja fjarvinnuna hafa gengið vel og að tæknilegar hindranir hafi verið fáar.

Helstu áskoranir við fjarvinnu sem félagsmenn nefna er félagsleg einangrun starfsfólks og árekstrar vinnu og einkalífs,“ 

segir Marta og bætir við „Auðvitað þurfa vinnustaðir að vera meðvitaðir um þessar áskoranirnar og finna leiðir til að mæta þeim en við sjáum þó að fjarvinna hefur einnig mikla kosti og tækifæri í för með sér.“

Þótt næstum allir vinnustaðir telji að fjarvinnan hafi nýst þeim vel í Covid-19 faraldrinum segir Marta að vinnustaðir ætli sér almennt flestir að draga nokkuð eða mikið úr notkun hennar. 

Breytingin sé þó sú að reynsla síðustu vikna hafi ýtt undir jákvæðara viðhorf gagnvart fjarvinnu og hún sé núna orðin viðurkenndari og raunhæfur kostur.

Rýmkun samkomubanns

Sóley Kristjánsdóttir ráðgjafi hjá Gallup.Vísir/Vilhelm

Að sögn Sóleyjar Kristjánsdóttur má sjá á niðurstöðum að mannauðstjórar og -sérfræðingar vilja flýta sér hægt þegar kemur að því að koma vinnustöðum aftur í fyrra horf.

Það er áhugavert að lítið eitt stærri hluti svarenda töldu vinnustaðinn sinn vera betur undirbúin að takast á við samkomubannið í mars, en rýmkun þess núna 4.maí,“ 

segir Sóley og bætir við „Það bendir mögulega til þess að það hafi verið skýrara hvaða skref þyrfti að taka þá heldur en núna. Það sem einkennir svörin núna er að fólk vill stíga varlega til jarðar, en jafnframt koma starfsemi vinnustaðarins aftur í gang.“

Mikill meirihluti taldi þó að rekstur vinnustaðarins myndi áfram vera undir nokkrum eða miklum áhrifum vegna Covid-19, þrátt fyrir rýmkun samkomubannsins,“ 

segir Sóley.

Þá segir hún undirbúning rýmkunar samkomubanns almennt virðast vera að ganga vel og það gildi bæði um hið opinbera og einkageirann.

Þá er eðlilega mikil áhersla á að skipuleggja rými þannig að hægt sé að mæta 2ja metra reglunni, margir eru að takmarka bæði aðgang að og notkun mötuneytisins. Flestir vinnustaðir sem geta ætla að bjóða starfsfólki að vinna áfram fjarvinnu, en bjóða fólki sem það vill að koma aftur á vinnustaðinn. 

Margir ætla að skipta starfsmannahópnum upp, bæði eftir viðverum og rýmum þar sem þess er kostur,“ 

segir Sóley.

Sóley bendir á að víða sé starfsemi þó þess eðlis að áherslan sé fyrst og fremst sú að gera fólki kleift að mæta aftur til vinnu. „Þetta er helst framleiðslustarfsemi hverskonar, verslun, þjónusta við atvinnuveginn og opinber stjórnsýsla sem hefur tök á því,“ segir Sóley.

Þá skín í gegn samkenndin, en að sögn Sóleyjar þá hafa helmingur svarenda mjög eða frekar miklar áhyggjur af áhrifum faraldursins á andlega líðan starfsfólks og um tæplega helmingur svarenda sem hafa mjög eða frekar miklar áhyggjur af því að þeir sem standi þeim næst muni smitast og eru margir vinnustaðir að gera sérstakar ráðstafanir vegna fólks sem hefur miklar áhyggjur af smiti eða tilheyrir áhættuhópi vegna Covid-19, nú við endurkomu fólks á vinnustaði. „Það hefur þó nokkuð dregið úr áhyggjum miðað við sömu könnun í mars þegar samkomubann var við það að bresta á“, segir Sóley.

Svarendur höfðu hins vegar töluvert minni áhyggjur af áhrif Covid á eigin líðan eða smiti, en rúmlega helmingur hefur mjög eða frekar litlar áhyggjur af því. „Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart, en við höfum tilhneigingu til að hafa meiri trú á því að slæmir hlutir gerist frekar fyrir aðra en okkur sjálf,“ segir Sóley.

Þá segir Sóley það ekki koma á óvart að sjá hvað mannauðsfólk er umhugað og lausnamiðað þegar kemur að leiðum til að bæta líðan starfsfólks og stjórnenda, „Almennt hefur upplýsingastreymi verið aukið, áhersla verið á félagsleg samskipti og að hafa jákvæð skilaboð. 

Áberandi er að allir hafa lagst á eitt í að gera þennan tíma bærilegan og styðja við hvort annað þar sem þess þarf. 

Fólk finnur leiðir þegar á reynir og það endurspeglast í niðurstöðum könnunarinnar, til að mynda hefur fólk verið duglegt að nýta sér tæknina til að eiga samverustundir með samstarfsfólki og eru margir að telja fram Bingó, pub quiz og gleðistundir (e. happy hour), allt auðvitað í fjarbúnaði,“. 

„Þá buðu margir vinnustaðir upp á fjaryoga, -hugleiðslustundir og jafnvel einkaþjálfun, auk fræðslu hverskonar er varðar vellíðan, bæði andlega og líkamlega, en það kom líka fram í fyrri könnun okkar í mars fyrir Mannauð,“ segir Sóley og bætir við að þar hafi jafnvel sumir vinnustaðir boðið starfsfólki sínu upp á sálfræðiaðstoð.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.