Körfubolti

ÍR riftir samningnum við Sigurð Gunnar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sigurður Gunnar Þorsteinsson í einum leiknum á móti Njarðvík.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson í einum leiknum á móti Njarðvík. Vísir/Bára

Sigurður Gunnar Þorsteinsson er án samnings eftir að ÍR rifti samningi við hann eftir leiktíðina í Dominos-deild karla sem var blásin af vegna kórónuveirunnar. Sigurður greindi fyrst frá þessu á Instagram-síðu sinni.

Í samtali við Körfuna staðfesti hann tíðindin og segir að Breiðhyltingar hafi sagt upp samningnum við hann eftir leiktíðina en hann varð fyrir því óláni að slíta krossband í upphafi tímabilsins og spilaði lítið sem ekkert.

Hann var einn aðalmaðurinn í liðinu sem fór alla leið í úrslitarimmuna gegn KR tímabilið 2018/2019 en eftir stutt stopp í Frakklandi kom hann aftur heim í ÍR og varð fyrir því óláni að meiðast, eins og fyrr segir.

Hann segir í samtalinu við Körfuna að nú hefjist leit að nýju liði en hann viti ekki hvar hann leiki á næstu leiktíð. Hann sé þó allur að jafna sig af meiðslunum og hann verði klár í fyrsta leik er boltinn fer aftur að rúlla í haust.

ÍR-ingar sömdu í gærkvöldi svo við Sæþór Elmar Kristjánsson en hann er uppalinn hjá félaginu. Samningurinn gildir til tveggja ára en hann hefur verið fastamaður í liðinu síðustu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×