Viðskipti

Heimsbíll ársins er Kia Telluride

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Kia Telluride
Kia Telluride

Verðlaunin fyrir heimsbíl ársins 2020 voru veitt í Toronto í Kanada í gær. Þar var Kia Telluride hlutskarpastur. Kia vann tvo flokka en Kia Soul EV vann flokk borgarbíla. Porsche Taycan vann svo tvo flokka upp á sitt einsdæmi. Mazda 3 fékk hönnunarverðlaun ársins 2020.

„Allir hjá Kia eru heiðraðir, við unnum ekki ein heldur tvenn verðlaun hjá dómnefndinni í vali á heimsbíl ársins,“ sagði Thomas Schemera yfirmaður vörudeildar hjá Kia Motors Corporation.

„Þetta eru ein eftirsóttustu verðlaunin á heimsvísu í bílabransanum, þetta er til votts um það að Telluride og Soul EV eru framúrskarandi bílar. Þessi verðlaun bera með sér hversu hæfileikaríkt og duglegt teymið er á heimsvísu og hversu hart allir sækja að því að framleiða eftirsótta gæða bíla sem hafa gott notagildi og ökumenn elsk,“ bætti Schemera við.

Porsche Taycan

Porsche Taycan vann flokkana: lúxusbíll ársins 2020 og sportbíll (e. Performance) ársins 2020.

„Porsche Taycan var hannaður með skýran tilgang: Að sýna að rafbíll getur haft góða frammistöðu, aksturseiginleika og virkað í hversdagsleikanum og notagildið sem einkennir hvern Porsche. Við erum afar stolt af því að alþjóðlegur hópur dómara telur okkur hafa tekist ætlunarverkið,“ sagði Oliver Blume, stjórnarformaður Porsche.

Mazda 3

Mazda 3 fékk hönnunarverðlaun ársins 2020, Porsche Taycan var í þriggja bíla úrslitum þar einnig, ásamt Peugeot 208.

„Það er okkur mikill heiður að taka á móti þessum verðlaunum, sérstaklega á 100 ára afmæli Mazda. Við munum halda áfram að skaffa viðskiptavinum einstaka vöru, hönnun, tækni og upplifun,“ sagði Akira Marumoto, framkvæmdastjóri Mazda. Marumoto byrjaði á því að votta þeim sem hafa orðið fyrir áhrifum af kórónaveirunni samúð alls fyrirtækisins.

Árið í ár er 15. árið sem verðlaunin eru veitt í samvinnu við Bílasýninguna í New York. Henni hefur nú verið frestað fram í ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×