Viðskipti innlent

Framkvæmdastjóri Krónunnar hættir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Gréta María Gretarsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri Krónunnar.
Gréta María Gretarsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri Krónunnar.

Gréta María Grétarsdóttir hættir sem framkvæmdastjóri Krónunnar. Í tilkynningu félagsins Festi, móðurfélags Krónunnar, til Kauphallarinnar segir að Gréta hafi sjálf óskað eftir því að láta af störfum.

Áður en Gréta María tók við sem framkvæmdastjóri Krónunnar í september 2018 gegndi hún stöðu fjármálastjóra fyrirtækisins. Gréta mun áfram sinna störfum framkvæmdastjóra þangað til eftirmaður hennar verður ráðinn.

Í fyrrnefndri tilkynningu segir Gréta það hafa verið erfiða ákvörðun að óska eftir starfslokum. Það hafi verið lærdómsríkt og krefjandi verkefni að leiða félagið í gegnum eigendaskipti og að búa til „leiðandi afl á matvörumarkaði,“ eins og hún orðar það. „Í mínu starfi hef ég lagt ríka áherslu á að sýna samfélagslega ábyrgð í verki og hafa áherslur okkar í þeim efnum meðal annars gert það að verkum að við höfum markvisst aukið hlutdeild okkar á markaði,“ segir Gréta.

Nokkrar sviptingar hafa orðið á matvörumarkaði á undanförnu en ekki er langt síðan að framkvæmdastjóri Bónus, stærsta keppinauts Krónunnar, lét af störfum. Unnið er að því að ráða eftirmann hans.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×