Atvinnulíf

Aukið traust á aðgerðir stjórnvalda á heimsvísu

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir, sviðstjóri fjármálaráðgjafar hjá Deloitte.
Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir, sviðstjóri fjármálaráðgjafar hjá Deloitte.

„Fleiri telja nú að stjórnvöld búi yfir nægjanlegum hagstjórnartækjum til að draga úr áhrifum COVID-19 en þegar Deloitte spurði þeirrar spurningar fyrst,“ segir Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir, sviðstjóri fjármálaráðgjafar hjá Deloitte. Lovísa vísar þar til niðurstaðna úr vikulegri könnun sem Deloitte Economics hefur framkvæmt á heimsvísu frá 12.mars síðastliðnum. „Þetta kemur í sjálfu sér ekki á óvart en á undanförnum viknum hafa stjórnvöld um allan heim tilkynnt umfangsmikla aðgerðarpakka þar sem ríkisútgjöld og stjórntæki seðlabanka eru nýtt til að styðja við atvinnulífið,“ segir Lovísa.

Könnun Deloitte Economics nær til um tvö til þrjú þúsund svarenda um allan heim. Þrjár spurningar hafa verið lagðar fyrir hópinn vikulega í einn mánuð og má sjá á samanburði á milli vikna að aðeins dregur úr svartsýni.

Þannig höfðu 76% svarenda sagt í síðustu viku að þeir teldu að hagkerfi síns heimalands myndi ekki taka við sér fyrr en á fjórða ársfjórðungi 2020 eða síðar. Í niðurstöðum fyrir sömu spurningu 2.apríl síðastliðinn, lækkaði þetta hlutfall í 69%.

„Útbreiðsla vírussins og þær aðgerðir sem stjórnvöld um allan heim hafa þurft að grípa til að hefta útbreiðsluna hafa óhjákvæmilega haft veruleg áhrif á hagkerfi heimsins. Í dag er mikil óvissa um hversu umfangsmikil áhrifin eru og ekki síður hve lengi þau muni vara,“ segir Lovísa og bætir við „Í gær var niðurstaðan örlítið bjartari en í síðustu viku og verður áhugavert að sjá hvort þessi þróun haldi áfram og sé þá eitthvað að ganga til baka.

Í niðurstöðum má þó sjá að fleiri telja nú en áður að áhrifin verði langvinn.

Á meðfylgjandi myndum má sjá sundurliðun svara fyrir hverja viku frá 12.mars síðastliðnum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.