Stefán Rafn Sigurmannsson var markahæsti leikmaður Rhein-Neckar Löwen í 24-20 sigri á danska liðinu Kolding á heimavelli í dag en með sigrinum lyftir Löwen sér yfir Vardar í 3. sæti B-riðilsins.
Heimamenn í Löwen lentu fimm mörkum undir í upphafi leiksins og var Kolding 8-3 yfir um miðbik hálfleiksins en þá virtist Löwen vakna til lífsins.
Löwen tókst að ná forskotinu aftur fyrir lok fyrri hálfleiks og fór með eins marks forskot inn í hálfleikinn 12-11.
Í seinni hálfleik voru úrslitin í raun aldrei í hættu og sigldu heimamenn sigrinum heim með Stefán Rafn fremstan í flokk.
Lauk Stefán leiknum með sjö mörk en Alexander Petersson komst ekki á blað á þeim fjórtán mínútum sem hann lék í dag.
Stefán Rafn markahæstur í sigri á Kolding
