Viðskipti innlent

FME gerir fjölmargar athugasemdir við Arion banka

ingvar haraldsson skrifar
Fjármaáleftirlitið gagnrýnir margt í úttekt sinni á Arion banka.
Fjármaáleftirlitið gagnrýnir margt í úttekt sinni á Arion banka. vísir/stefán
Fjármálaeftirlitið gerði fjölmargar athugasemdir við aðskilnað sviða innan Arion banka í úttekt sem lauk í desember síðastliðnum. Gagnrýnt er að stefna bankans um hagsmunaárekstra séu ófullnægjandi.

Innri reglur bankans veittu Halldóri Bjarkari Lúðvíkssyni, framkvæmdastjóra fjárfestingabankasviðs Arion banka, of víðtækar heimildir til aðgangs að gögnum og upplýsingum þeirra starfssviða sem heyra undir fjárfestingabankasviðið og skulu vera aðskilin.

Þá ættu starfsstöðvar Halldórs, aðstoðarmanns hans og starfsmanns sem undir hann heyri, að vera á öðrum stað. Einnig var gerð athugasemd við að þeir hefðu óheftan aðgang að gögnum tiltekinna starfssviða sem heyra undir fjárfestingabankasvið og að þeir hefðu aðgang að vinnustöðvum tiltekinna starfssviða. Halldór Bjarkar ætti heldur ekki að vera í fjárfestingaráði bankans sem taki ákvarðanir um eigin fjárfestingar bankans.

Fjármálaeftirlitið taldi að til að tryggja aðskilnað starfsviða ætti framkvæmdastjóri eingöngu að koma að stærri ákvörðunum og fá upplýsingar um starfsemi starfssviðanna frá forstöðumönnum viðkomandi starfssviða nema heimildar væri aflað hjá regluvörslu bankans fyrir frekari aðgangi.

Þá voru einnig gerðar athugasemdir við aðgang annara starfsmanna bankans. Starfslýsing tiltekins starfsmanns gæfi til kynna að hann væri að sinna verkefnum sem tilheyrðu sviðum fyrir ofan Kínamúra og innan þeirra. Einnig væri starfsmaður dótturfyrirtækisins á póstlista sem ætlaður væri hópi starfsmanna bankans og starfsmenn tiltekinna starfssviða, sem ættu að vera aðskilin, væru á sameiginlegum póstlista.

Bankanum var gert að láta innri endurskoðandi framkvæma úttekt á úrbótunum og skila Fjármálaeftirlitinu greinargerð í síðasta lagi 17. mars 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×