Viðskipti innlent

17,5 prósent aukning í kaupsamningum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Í fyrra voru 16 prósent meiri viðskipti á fasteignamarkaði en meðalfjöldi viðskipta á ári síðustu 13 árin.
Í fyrra voru 16 prósent meiri viðskipti á fasteignamarkaði en meðalfjöldi viðskipta á ári síðustu 13 árin. Vísir/Vilhelm
Í fyrra voru 16 prósent meiri viðskipti á fasteignamarkaði en meðalfjöldi viðskipta á ári síðustu 13 árin. Alls var þinglýst um 6.900 kaupsamningum íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2015, sem var 17,5% aukning frá árinu áður. Viðskipti með fjölbýli voru 5.526 og jukust um 17% og viðskipti með sérbýli voru1.367 og jukust um 19,6%. Viðskipti með fjölbýli voru þannig rúmlega 80% viðskiptanna sem var örlítið lægra hlutfall en árið áður. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans.

Meðalfjöldi viðskipta á ári síðustu 13 árin var um 6.000 á ári og viðskiptin í fyrra voru þannig um 16% meiri en verið hefur að jafnaði síðustu 13 ár. Aukningin frá árinu 2009 hefur verið stöðug en þó er aukningin í fyrra mun meiri en síðustu 3 árin þar á undan. Þá vekur það líka athygli að viðskipti með sérbýli hafa aukist meira en viðskipti með fjölbýli á síðustu þremur árum eftir að hafa aukist minna næstu 3 árin þar á undan.

Fjórfalt fleiri eignir í Reykjavík en árið 2009

Sé litið á þróun viðskipta í sveitarfélögunum sex á höfuðborgarsvæðinu sést að þróunin hefur alls staðar verið upp á við. Viðskiptum fjölgaði eðlilega langmest í Reykjavík, enda er stærstan hluta af húsnæðinu að finna þar. Í Reykjavík voru einungis seldar um 1.000 eignir á árinu 2009 en þær voru nálægt 4.000 á árinu 2015.

Séu hin sveitarfélögin á höfðaborgarsvæðinu skoðuð sérstaklega sést að viðskiptin í Kópavogi og Hafnarfirði skera sig nokkuð úr. Í báðum bæjunum hefur verið nokkuð góður og jafn vöxtur á viðskiptum frá árinu 2009. Þá er einnig athyglisvert að sjá stökkið í Garðabæ á milli áranna 2014 og 2015. Þá vekur einnig athygli hversu lítið fall var í viðskiptum í Garðabæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi á milli áranna 2008 og 2009. Viðskipti með íbúðarhúsnæði er yfirleitt blanda af kaupum á eldra húsnæði og nýbyggingum. Í nýlegri Hagsjá var fjallað um hversu lítið af nýju húsnæði hafi komið inn á markaðinn á síðustu árum. Þar kom m.a. fram að hlutfall nýrra íbúða hefur verið mjög mismunandi eftir sveitarfélögum, að jafnaði lægst í Reykjavík, en mun hærra t.d. í Kópavogi, Garðabæ og Mosfellsbæ. 

Myndin í fjórum bæjum utan höfuðborgarsvæðisins er svipuð og gildir um höfuðborgarsvæðið. Mikil aukning hefur alls staðar orðið á viðskiptum frá árinu 2009. Það vekur þó athygli að hlutfallsleg fækkun viðskipta á Akureyri á milli áranna 2008 og 2009 var mun minni en víðast annars staðar og svipað gildir reyndar um Akranes.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×