SPRON hefur gengið frá samningi um 200 milljóna evra sambankalán til þriggja ára. Þetta jafngildir tæpum 17,3 milljörðum íslenskra króna, og er stærsta sambankalán í sögu bankans.
Spron hlaut góðar viðtökur á alþjóðlegum sambankalánamarkaði og var mikil umframeftirspurn meðal fjárfesta, að því er segir í tilkynningu frá sparisjóðnum. Stóð upphaflega til að taka 100 milljónir evra, jafnvirði rúmra 8,6 milljarða króna, að láni en vegna mikillar eftirspurnar hækkaði bankinn heildarfjárhæð lánsins í 200 milljónir.
Alls tók 21 alþjóðlegur banki þátt í láninu en yfirumsjón með því höfðu BayernLB, DZ Bank AG, Fortis Bank, HSH Nordbank AG, Raiffeisen Zentralbank Österreich AG og Sumitomo Mitsui Banking Corporation.