Viðskipti innlent

Svipmynd Markaðarins: Keppti í blaki í efstu deild í 15 ár

Haraldur Guðmundsson skrifar
Friðbert var ráðinn framkvæmdastjóri SFF árið 2000.
Friðbert var ráðinn framkvæmdastjóri SFF árið 2000. Vísir/GVA
Friðbert Traustason, formaður og framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF), hefur verið formaður samtakanna frá 1995. Hann tók við starfi framkvæmdastjóra fimm árum síðar og var því öllum hnútum kunnugur í kjaraviðræðum SSF og SA sem enduðu með undirritun samninga um miðjan síðasta mánuð.

„Kjarasamningarnir voru ansi erfiðir enda fyrirfram ákveðnir fyrir alla landsmenn af þremur aðilum, ASÍ, SA og ríkisstjórninni, og það er alltaf erfitt að þurfa að kyngja því. Menn þurftu að velja um annaðhvort að éta það hrátt eða fá ekki neitt,“ segir Friðbert.

Hann fæddist vestur á Flateyri við Önundarfjörð í október 1954 og byrjaði snemma að vinna.

„Í fyrsta starfinu sem ég fékk eitthvað borgað fyrir þurfti ég að hreinsa garnir í sláturhúsinu á Flateyri. Þá var ég átta ára. Það var mjög sérstakt að standa og hreinsa garnirnar ofan í bala sem voru síðan sendar suður til Reykjavíkur til að framleiða úr þeim pylsur. Síðan var ég á sjó frá fermingu og eftirminnilegasti túrinn var þegar ég fór á síld í Norðursjónum sextán ára gamall.“

Friðbert var í fyrsta útskriftarárgangi Menntaskólans á Ísafirði árið 1974. Þaðan lá leiðin í Háskóla Íslands þar sem hann lærði verkfræði í tæp tvö ár.

„Síðan söðlaði ég um og fór að vinna hjá Reykjavíkurborg og síðar Reiknistofu bankanna þar sem ég vann við kerfisfræði og forritun í tuttugu ár. Á þeim árum fór ég aftur í skóla og sótti mér háskólagráðu í hagfræði frá HÍ. Svo fór ég seinna í meistaranám í stjórnun og stefnumótun í sama skóla og kláraði þar allt nema ritgerðina, eins og svo margir. Hún er núna sett á júní en hvað verður veit maður aldrei,“ segir Friðbert og hlær.

Hann keppti í blaki í efstu deild í fimmtán ár, lengst af með Íþróttafélagi stúdenta, og er að eigin sögn alæta á íþróttir.

„Svo var ég viðloðandi öldungablakið í seinni tíð þangað til bakið gaf sig. Ég er einnig mikill golfari og svo keypti ég mér hjól í fyrrasumar og er nokkuð duglegur að hjóla í og úr vinnu. Hinum íþróttunum sinnir maður orðið mest með því að horfa á sjónvarpið.“

Friðbert er giftur Sigrúnu Ósk Skúladóttur lyfjatækni. Þau eiga tvö börn, lögmanninn Sunnu Ósk og háskólanemann Trausta.

„Afahlutverkið er mikilvægasta verkefnið þessa dagana. Ég á eina dótturdóttur sem heitir Ragnheiður Ósk og er fjögurra ára. Hún er búin að tilkynna afa sínum að nú vilji hún læra að lesa og að afi þurfi að kenna henni að lesa.“

Anna Karen Hauksdóttir
Anna Karen Hauksdóttir, formaður Starfsmannafélags Íslandsbanka

„Við Friðbert höfum þekkst lengi og unnið saman frá 2004 í stjórn SSF. Friðbert kemur ávallt fram af heilindum og stendur við orð sín. Hann hefur sterka réttlætiskennd og á auðvelt með að sjá báðar hliðar á málum þó hann geti verið harður í samningum. Vestfirska þrjóskan hefur nýst honum vel en jafnframt hefur hann sínar mjúku hliðar og má ekkert aumt sjá.

Hann er víðsýnn en á sama tíma skemmtilega íhaldssamur. Í gegnum tíðina hefur hann reynst mér góður lærifaðir. Hann er manna fróðastur um lífeyris- og kjaramál og alltaf tilbúinn að deila upplýsingum og fræða aðra í kringum sig.”

Sveinn Sveinsson
Sveinn Sveinsson, hæstaréttarlögmaður

„Við Friðbert höfum starfað saman að málefnum starfsmanna fjármálafyrirtækja yfir 30 ár. Hann er ótrúlega úrræðagóður þegar leysa þarf flókin mál enda er áhugi hans og þekking á þessu sviði mikil. Þó hann sé lærður hagfræðingur en ekki lögfræðingur hefur hann mikla innsýn í lögfræðina og hefur mörg erfið mál leyst á grunni þeirrar þekkingar. 

Þá tel ég að fáir hafi meiri þekkingu á lífeyrismálum og er endalaust hægt að fletta upp í honum þegar þau mál eru til umfjöllunar. Hann er góður stjórnandi og hefur farsællega leitt starfsemi SFF og Lífeyrissjóð bankamanna á liðnum áratugum.”






Fleiri fréttir

Sjá meira


×