Atvinnulíf

Kórónuveiran reynir á túlkun samninga og eiginkonan vill þjóðnýta hann í svefnrannsóknir

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Árni Helgason lögmaður hefur velt fyrir sér stofnun baráttufólks B-fólks en segist ekki treysta sér í þann slag.
Árni Helgason lögmaður hefur velt fyrir sér stofnun baráttufólks B-fólks en segist ekki treysta sér í þann slag. Vísir/Vilhelm

Árni Helgason lögmaður hjá JÁS Lögmönnum segir lögmannstarfið vera skemmtilegt því það feli í sér að vinna með mörgu fólki. Auðvitað felist verkefni oft í deilum á milli aðila en góðu hliðarnar eru þær að útrás fyrir þras og þrætur klárast í vinnunni og hann því enn viðmótsþýðari heima fyrir en annars gæti verið. Utan vinnu sýslar Árni við pistlaskrif, uppistand og er auk þess einn af umsjónarmönnum hlaðvarpsins Hismið. 

Í kaffispjalli um helgar er talað við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum fólk alltaf hvenær það vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um helstu verkefni og skipulagið.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Ég er B-maður og ef ég byggi ekki í samfélagi manna og hefði ekki skyldum að gegna, til dæmis gagnvart börnum, fjölskyldu, fólki sem þekkir mig og nánasta umhverfi og samfélagi myndi ég samkvæmt minni líffræðilegu klukku vakna svona um ellefuleytið, eftir að hafa vakað eitthvað inn í nóttina.

Takturinn hjá okkur B-fólki á hins vegar ekki upp á pallborðið í hinu A-miðaða samfélagi sem við búum í og ég hef því miður ekki enn fundið styrkinn til að berjast almennilega á móti, stofna samfélag B-fólks og hætta að búa í A-normatívu samfélagi. 

Maður verður víst að velja slagina.

En til að svara spurningunni þá sem sagt vakna ég yfirleitt upp úr sjö og fer að ýta við krökkunum en við skötuhjúin reyndar skiptum aðeins verkum í þessu eftir morgnum.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Ég ýti við krökkunum og fæ mér einn kaffibolla.

Maður sér fólk oft lýsa morgnum sem fallegri athöfn, ferðalagi inn í nýja daginn sem er þar með boðinn velkominn með allskonar serímóníum eins og hugleiðslu, hreyfingu eða stund með sjálfum sér.

Þetta á ekki við um mig, morgnarnir eru þungir og ég er að jafnaði fámáll. 

En hressist hratt þegar líður á daginn.“

Klárar þras og þrætur í vinnunni

Er hægt að lýsa starfi lögmannsins sem skemmtilegu eða er þetta aðallega þras og þrætur?

Lögmannsstarfið er skemmtilegt og áhugavert að því leytinu til að það snýst mikið um að vinna með fólki sem maður kynnist og fær innsýn í þeirra líf og er á vissan hátt þátttakandi í um tíma, til að reyna að hjálpa og leysa úr málum.

En hluti af því er vissulega þras og þrætur.

Það er held ég hluti af þessu starfi og eitthvað sem er erfitt að forðast og í raun ágætis útrás, maður þrasar í vinnunni um gallaðar skólplagnir í fasteignakaupum eða hvort vatnsgeymirinn hafi verið orðinn bilaður þegar bílinn var seldur og maður er svolítið búinn með þann skammt þegar heim er komið og er bara lausnamiðaður og þægilegur þar.

Þannig upplifi ég sjálfan mig allavega á heimilinu!“

Árni segir kórónuveiruna reyna á túlkun samninga en hefur trú á að Ísland muni ná sér fljótt á strik enda samtakamátturinn mikill hér þegar á reynir.Vísir/Vilhelm

Kórónuveiran reynir á samninga og túlkun þeirra

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

Það er náttúrulega eitt og annað í gangi í tengslum við þessa fjandans veiru og efnahagslegar afleiðingar hennar, nú reynir á samninga og túlkun þeirra og auðvitað finnur maður að það er erfitt víða hjá fólki og fyrirtækjum.

Ljósið í myrkrinu er hins vegar hve vel sóttvarnaraðgerðir hafa gengið og veiran gengið hratt niður og vonandi getur það orðið til þess að efnahagslægðin gangi fljótt yfir og það jafnvel búið til tækifæri fyrir okkur sem áfangastað.

Þetta tónar vel við ímynd okkar um víðerni, kyrrð og náttúrufegurð, í þessu felst ákveðið öryggi sem Ísland getur boðið upp á þegar heimurinn upplifir skrýtna og viðsjárverða tíma.

Ég hef þrátt fyrir allt trú á að við vinnum okkur hratt upp úr þessu, samtakamátturinn hér á landi er sterkur þegar á reynir.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

„Ég er átaksmaður og vinnan er óhjákvæmilega þannig, þetta snýst svolítið um að geta sökkt sér ofan í skjöl, gögn, dómar og fræðirit en það er erfitt að gera það í til dæmis tíu mínútur af og til yfir daginn heldur þarf að taka samfelldar skorpur.

Þannig að ég reyni að búa mér til tíma til að geta gert þetta, en það krefst þess að utanaðkomandi áreiti sé ekki mikið á meðan. 

Sem er aftur erfitt á þessum síðustu og verstu tímum þegar það er alltaf eitthvað notification að kitla mann, sem maður bara verður að kíkja á.“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Svona upp úr miðnætti reyni ég að fara upp í en þá á ég hins vegar til að vera kominn á skrið við vinnu eða eitthvað grúsk og háttatíminn hefur tilhneigingu til að dragast.

Ég vinn svo upp svefn þegar um hægist, til dæmis um helgar og bý við þann lúxus að geta sofnað fljótt og sofið fast og lengi.

Konan mín sýnir þessu öllu mikinn skilning og er tíðrætt um undrið sem óregluegt svefnmynstur mitt er.

Hún leggur meira að segja reglulega til að ég verði þjóðnýttur til svefnrannsókna.“


Tengdar fréttir

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.