Handbolti

Enn sigra Kiel og Lemgo

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Logi Geirsson í leik með íslenska landsliðinu.
Logi Geirsson í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Pjetur

Kiel og Lemgo héldu sínum strikum í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta og unnu sína leiki í kvöld nokkuð sannfærandi.

Logi Geirsson var markahæstur sinna manna í Lemgo sem vann sex marka útisigur á Balingen, 28-22. Logi skoraði þrjú marka sinna úr vítum en hann nýtti öll vítin sín í leiknum. Vignir Svavarsson skoraði eitt mark í leiknum.

Kiel, lið Alfreðs Gíslasonar, vann góðan sjö marka sigur á Nordhorn á heimavelli, 35-28.

Gylfi Gylfason skoraði þrjú mörk fyrir Minden sem vann Füchse Berlin á heimavelli, 30-28. Ingimundur Ingimundarson skoraði eitt mark fyrir Minden.

Að síðustu vann Flensburg sigur á Göppingen, 28-23. Jaliesky Garcia var ekki í leikmannahópi Göppingen í kvöld né heldur Alexander Petersson hjá Flensburg sem hefur verið lengi frá vegna meiðsla.

Kiel er í efsta sæti deildarinnar með 27 stig og tveggja stiga forystu á Lemgo sem er í öðru sæti. Kiel á þó leik til góða.

Flensburg er í fjórða sæti deildarinnar með 21 stig, Göppingen í því sjötta með nítján og Füchse Berlin í níunda með sextán stig. Minden er í þrettánda sæti deildarinnar með tíu stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×