Viðskipti innlent

Eignast helming í Íslenskum verðbréfum

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Íslensk verðbréf hafa gengið frá kaupum á Viðskiptahúsinu.
Íslensk verðbréf hafa gengið frá kaupum á Viðskiptahúsinu.
Fyrrverandi eigendur Viðskiptahússins hafa eignast helmingshlut í Íslenskum verðbréfum í kjölfar kaupa síðarnefnda fyrirtækisins á því fyrrnefnda. Öllum skilyrðum fyrir kaupunum hefur verið fullnægt og var gengið endanlega frá þeim í byrjun vikunnar.

Félagið Björg Capital, sem er í eigu Þorbjargar Stefánsdóttur, er þannig orðið langsamlega stærsti hluthafi Íslenskra verðbréfa en Þorbjörg er eiginkona Jóhanns M. Ólafssonar, stofnanda Viðskiptahússins og nýs forstjóra Íslenskra verðbréfa.

Þar á eftir koma Stapi lífeyrissjóður, Brú lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna Akureyrarbæjar, KEA, Kjálkanes, Maritimus Investors og Kaldbakur, hver um sig með 4,99 prósenta hlut.

FME komst að þeirri niðurstöðu í lok mars að Björg Capital teldist hæft til þess að fara með virkan eignarhlut sem nemur 50 prósentum í Íslenskum verðbréfum, þar með talið í dóttur- og hlutdeildarfélögunum ÍV sjóðum og T Plús.

Haft var eftir Sigurði Atla Jónssyni, stjórnarformanni Íslenskra verðbréfa, í tilkynningu fyrr í vikunni að markmiðið með kaupunum væri að skapa sérhæft fjármálafyrirtæki í eignastýringu, miðlun og ráðgjöf með sérstöðu í staðsetningu utan höfuðborgarsvæðisins.

Viðskiptahúsið hefur frá stofnun árið 1999 sérhæft sig í ráðgjöf til fyrirtækja í sjávarútvegi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×