Stjórn Reiknistofu bankanna hefur ráðið Ragnhildi Geirsdóttur í starf forstjóra félagsins. Ragnhildur hefur starfað sem aðstoðarforstjóri WOW air frá ágúst 2017.
Í tilkynningu frá RB segir að Ragnhildur hafi víðtæka reynslu úr íslensku atvinnulífi og mikla stjórnunarreynslu. Hafi hún áður starfað sem framkvæmdastjóri Rekstrar og upplýsingatækni hjá Landsbankanum í fimm ár og forstjóri Promens í rúm fimm ár.
„Þar áður starfaði Ragnhildur hjá Icelandair/Flugleiðum í sex ár og gegndi stöðu forstjóra í lok þess tíma. Ragnhildur er verkfræðingur og viðskiptafræðingur að mennt. Hún lauk CS prófi í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands 1995, MS prófi í iðnaðarverkfræði frá Háskólanum í Wisconsin árið 1996 og MS prófi í viðskiptafræði frá sama skóla 1998,“ segir í tilkynningunni.
Haft er eftir Sævari Frey Þráinssyni, stjórnarformanni RB, að hann fagni komu Ragnhildar til RB. „Hún er öflugur leiðtogi með víðtæka reynslu sem mun nýtast RB á þeim spennandi tímum sem eru framundan. Fyrirtækið hefur verið að taka miklum breytingum á síðustu árum og munu þær halda áfram enda leikur RB stórt hlutverk í að auka gæði og hagkvæmni í fjármálakerfinu á Íslandi, m.a. með rekstri helstu grunnkerfa fjármálafyrirtækja“.
Ragnhildur mun taka við af Friðriki Snorrasyni sem sagði upp störfum á síðasta ári eftir að hafa starfað hjá fyrirtækinu í tæp átta ár.
Reiknistofa bankanna er þjónustufyrirtæki á sviði upplýsingatækni sem þróar og rekur hinar ýmsu fjármálalausnir, þar á meðal öll megin greiðslukerfi landsins. Hlutverk RB er að auka hagkvæmni í tæknirekstri íslenskra fjármálafyrirtækja. Þar starfa tæplega 170 manns.
