Viðskipti innlent

Helgi meðal stærstu hluthafa Iceland Seafood

Hörður Ægisson skrifar
Helgi Magnússon fjárfestir.
Helgi Magnússon fjárfestir. Fréttablaðið/GVA

Helgi Magnússon, fjárfestir og stjórnarformaður Bláa lónsins, er í hópi stærstu hluthafa Iceland Seafood Inter­national með 1,3 prósenta hlut. Félagið Hofgarðar, sem er í eigu Helga, á þannig samtals 30 milljónir hluta í sjávarútvegsfyrirtækinu að nafnvirði, sem er metinn á tæplega 300 milljónir króna miðað við núverandi gengi bréfa félagsins.



Þetta kemur fram í yfirliti yfir stærstu hluthafa Iceland Seafood í lýsingu sem birtist í liðinni viku vegna áforma félagsins um að skrá fyrirtækið á aðalmarkað Kauphallarinnar samhliða því að selja í næstu viku í almennu útboði bréf í félaginu sem jafngildir rúmlega 9,6 prósenta hlut.



Helgi, sem er fyrrverandi stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna og sat í stjórn Marels í fjórtán ár, hóf að fjárfesta í Iceland Seafood síðastliðið vor, samkvæmt upplýsingum Markaðarins. Ásamt því að vera stór hluthafi í Bláa lóninu hefur Helgi að undanförnu fjárfest meðal annars í Stoðum, Kviku banka auk þess sem hann keypti í júní síðastliðnum helmingshlut í Torgi, útgáfufélagi Fréttablaðsins, og tók hann í kjölfarið sæti í stjórn félagsins.



Stærstu hluthafar Iceland Seafood eru félögin Sjávarsýn, fjárfestingafélag Bjarna Ármannssonar, Nesfiskur, FISK-Seafood og Jakob Valgeir ehf. sem fara samanlagt með rúmlega 40 prósenta hlut auk þess að eiga í sameiningu félagið Solo Holding sem á 9,7 prósenta hlut í sjávarútvegsfyrirtækinu.



Heildarvelta samstæðunnar á fyrri árshelmingi þessa árs nam 232 milljónum evra, jafnvirði um 31 milljarðs króna, sem var 55 prósenta aukning frá fyrra ári. Aðlagaður hagnaður Iceland Seafood nam tæplega 5,5 milljónum evra á tímabilinu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×