Innlent

Vilja að Sveinn Andri leggi fram af­rit af milli­færslum vegna endur­greiðslunnar í þrota­búið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður, hefur kært héraðsdómara til nefndar um dómarastörf vegna ákvörðunar dómarans um að hann skuli endurgreiða þrotabúi EK1923 ehf. þóknanir.
Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður, hefur kært héraðsdómara til nefndar um dómarastörf vegna ákvörðunar dómarans um að hann skuli endurgreiða þrotabúi EK1923 ehf. þóknanir. vísir/vilhelm

Lögmaður níu af þeim tíu kröfuhöfum sem gert hafa aðfinnslur við störf Sveins Andra Sveinssonar sem skiptastjóra þrotabús EK1923 ehf. kveðst ekki sjá að ákvörðun Helga Sigurðssonar, héraðsdómara, um að Sveini Andra beri að greiða búinu til baka um 100 milljónir króna, sem hann hafði ráðstafað sem þóknunum til sín, byggist á persónulegri óvild dómarans í garð skiptastjórans.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Heiðar Ásberg Atlason, lögmaður kröfuhafanna, sendi Vísi. Eins og greint var frá í gær hefur Sveinn Andri kært fyrrnefndan héraðsdómara til nefndar um dómarastörf vegna ákvörðunar dómarans um endurgreiðsluna til þrotabúsins. Fer Sveinn Andri fram á að dómarinn verði áminntur.

Kröfuhafarnir, hverra hagsmuna Heiðar gætir, höfðuðu mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir ári síðan þar sem gerðar voru athugasemdir við störf Sveins Andra sem skiptastjóra. Á meðal kröfuhafanna er Skúli Gunnar Sigfússon sem kenndur hefur verið við Subway. EK1923 ehf. var birgir fyrir Subway um tíma.

Tekist á um hvort víkja skuli Sveini Andra frá sem skiptastjóra

Var meðal annars fundið að því að Sveinn Andri hefði tekið sér þóknanir af eignum þrotabúsins án heimildar skiptafundar. Þá hefðu þóknanir skiptastjórans verið fram úr öllu hófi en að auki er gerð krafa um að Sveini Andra verði vikið frá sem skiptastjóra búsins:

„Með ákvörðun héraðsdómara var komist að þeirri niðurstöðu að Sveinn Andri skyldi endurgreiða allar þóknanir til þrotabúsins fyrir tiltekinn tíma. Frekari málsmeðferð er ólokið en þann 15. janúar nk. verður málflutningur um hvort Sveini Andra skuli vikið frá sem skiptastjóra. Fyrir þann dag ber Sveini Andra að afhenda gögn til að staðfesta að hann hafi bætt úr því sem fundið var að í ákvörðun dómsins.

Ágreiningur er uppi um bætt hafi verið úr þeim atriðum enda hafa engar staðfestingar á millifærslum verið lagðar fram þrátt fyrir kröfur þess efnis. Sveinn Andri tekur fram við fjölmiðla vegna kæru sinnar á hendur héraðsdómara að hann hafi látið fylgja staðfestingu frá endurskoðanda en kröfuhafar hafa farið fram á að sjá afrit af millifærslum auk yfirlits fjárvörslureiknings þrotabúsins til að sjá allar hreyfingar. Telja þeir skiptastjóra ekki stætt á öðru en að veita slíkar upplýsingar sem einfalt er að verða við,“ segir í yfirlýsingu Heiðars.

Ákvörðun dómsins alfarið í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar

Í yfirlýsingunni segir jafnframt að það sé rangt sem Sveinn Andri haldi fram í kæru sinni til nefndar um dómarastörf að enginn lagaáskilnaður sé um bókun um þóknun í fundargerð og ekki þurfi samþykki kröfuhafa fyrir ráðstöfuninni.

„Skiptastjóri hefur ekki heimild til að taka sér þóknun fyrir skiptastjórn fyrr en við úthlutun úr búinu nema að hafa gert um það áskilnað á skiptafundum. Um þetta er dómaframkvæmd Hæstaréttar mjög skýr.

Enginn slíkur áskilnaður var gerður í ítarlegum fundargerðum frá skiptafundum. Slíkt væri nauðsynlegt til að kröfuhafar geti gert athugasemdir við skiptakostnað á meðan á skiptum stendur því að öðrum kosti er ekki hægt að gera athugasemdir fyrr en við úthlutun úr þrotabúinu. En til að það úrræði sé raunhæft verða fjármunirnir að vera til staðar við úthlutun,“ segir í yfirlýsingunni sem lýkur á þeim orðum að niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur um að Sveini Andra beri að endurgreiða þrotabúinu byggi á „túlkun dómsins á þeim lagareglum sem snúa að réttarumhverfi skiptastjóra við gjaldþrotaskipti og þeim dómum Hæstaréttar sem til eru um það efni og byggt var á í málflutningi aðila.

Ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem fundið var að störfum Sveins Andra sem skiptastjóra er ítarlega rökstudd í 22 blaðsíðna greinargerð. Er hún alfarið í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar. Fær undirritaður ekki að neinu leyti séð að hún byggist á meintri persónulegri óvild dómara eins og Sveinn Andri heldur fram.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×