Viðskipti innlent

Segir er­lenda fjár­festa hafa mikinn á­huga á Lands­neti

Eiður Þór Árnason skrifar
Landsnet er hlutafélag í eigu Landsvirkjunar, RARIK, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkubús Vestfjarða og tók til starfa í ársbyrjun 2005.
Landsnet er hlutafélag í eigu Landsvirkjunar, RARIK, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkubús Vestfjarða og tók til starfa í ársbyrjun 2005. Vísir/Vilhelm

Landsnet gaf á dögunum út óverðtryggð skuldabréf fyrir hundrað milljónir Bandaríkjadollara, eða sem nemur 12,3 milljörðum íslenskra króna.

Bréfin voru seld til alþjóðlegra fagfjárfesta í lokuðu skuldabréfaútboði í Bandaríkjunum og verða ekki skráð í Kauphöllina hér á landi. Bréfin eru á gjalddaga eftir tíu til tólf ár, er fram kemur í tilkynningu frá Landsneti.

Guðlaug Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri fjármála hjá Landsneti, segir þar að það sé ánægjulegt að sjá að enn sé mikill áhugi erlendra fjárfesta á félaginu.

Hún segir rekstur félagsins vera stöðugan, fjárhagsstöðuna sterka og að mikill áhugi sé á innviðafyrirtækjum eins og Landsneti.

„Í hópi þeirra fjárfesta sem tóku þátt í þessari skuldabréfaútgáfu eru bæði aðilar sem tóku þátt í síðustu skuldabréfaútgáfu félagsins á árinu 2016 sem og nýir fjárfestar. Áhugi þeirra var, eins og í fyrra útboði, mikill og bárust tilboð í rúmlega tvöfalda þá fjárhæð sem fyrirtækið leitaði eftir,“ er haft eftir Guðlaugu í tilkynningu.

„Skuldabréfaútgáfan er á betri kjörum en síðasta skuldabréfaútgáfa félagsins sem endurspeglar aukið traust fjárfesta á okkur og Íslandi. Með þessari útgáfu höfum við aflað fjármagns til að endurgreiða stofnlán frá Landsvirkjun auk fjármögnunar á hluta af fjárfestingum félagsins á næsta ári,“ bætir hún við.

Landsnet er hlutafélag í eigu Landsvirkjunar, RARIK, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkubús Vestfjarða og tók til starfa í ársbyrjun 2005. Félagið annast annast flutning raforku og stjórnun raforkukerfa víða um land.


Tengdar fréttir

Tjón Landsnets áætlað 3 - 400 milljónir

Fimm heimili eru án rafmagns í dreifikerfi Rariks og verða það væntanlega til morguns en allir aðrir sem urðu fyrir rafmagnsleysi eru komnir með rafmagn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×