Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - Stjarnan 30-30 | Þorsteinn Gauti tryggði Mosfellingum stig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þorsteinn Gauti skoraði tíu mörk og var markahæstur á vellinum.
Þorsteinn Gauti skoraði tíu mörk og var markahæstur á vellinum. vísir/bára
Afturelding og Stjarnan skildu jöfn, 30-30, í miklum spennuleik í Olís-deild karla í handbolta í kvöld.Mosfellingar eru áfram í 2. sæti deildarinnar, nú þremur stigum á eftir toppliði Hauka. Stjörnumenn eru komnir upp í 8. sætið eftir að hafa fengið þrjú stig í síðustu tveimur leikjum..Afturelding byrjaði leikinn betur og leiddi framan af fyrri hálfleik.Stjarnan var þó aldrei langt undan og þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik jafnaði Andri Þór Helgason fyrir Garðbæinga. Hann var frábær í fyrri hálfleik og skoraði sex mörk úr jafn mörgum skotum.Hinum megin voru Þorsteinn Gauti Hjálmarsson og Guðmundur Árni Ólafsson í sérflokki en þeir skoruðu samtals tíu af 14 mörkum liðsins í fyrri hálfleik.Eftir að Sveinn Jose Rivera kom Aftureldingu í 12-11 svaraði Stjarnan með 4-1 kafla. Guðmundur Árni skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks og munurinn því eitt mark, 14-15, þegar liðin gengu til búningsherbergja.Stjarnan byrjaði seinni hálfleikinn miklu betur og komst í tvígang fjórum mörkum yfir. Eftir erfiða byrjun á seinni hálfleik náðu heimamenn vopnum sínum á ný og náðu að jafna metin þegar um tíu mínútur voru eftir.Lokamínúturnar voru æsispennandi. Andri Már Rúnarsson kom Stjörnunni tveimur mörkum yfir, 27-29, en Guðmundur Árni svaraði með tveimur mörkum og staðan orðin jöfn, 29-29.Tandri Már Konráðsson kom Stjörnunni aftur yfir en Þorsteinn Gauti jafnaði með sínu tíunda marki og tryggði Aftureldingu annað stigið. Lokatölur 30-30.Af hverju varð jafntefli?

Stjörnumenn voru heilt yfir sterkari og eru væntanlega svekktari með úrslitin. Spilamennska þeirra var samt góð annan leikinn í röð.Mosfellingar voru ólíkir sjálfum sér í vörninni en sóknin var góð nánast allan tímann.Hverjir stóðu upp úr?

Þorsteinn Gauti var óstöðvandi á löngum köflum og skoraði tíu mörk. Guðmundur Árni var frábær með átta mörk í jafn mörgum skotum og Birkir Benediktsson var heitur undir lokin.Tandri var mjög góður hjá Stjörnunni og skoraði níu mörk. Andri Már átti sinn besta leik í vetur og skoraði átta mörk. Þá var Andri frábær í fyrri hálfleik þar sem hann skoraði sex af sjö mörkum sínum.Hvað gekk illa?

Markvarsla beggja liða var slök og þau hafa oft spilað betri vörn, sérstaklega Afturelding.Hvað gerist næst?

Þetta var næstsíðasti leikur liðanna fyrir jólafrí. Eftir viku mætir Afturelding Fram í Safamýrinni. Degi síðar fær Stjarnan topplið Hauka í heimsókn.

Einar Andri var ekki ánægður með vörn Aftureldingar.vísir/bára
Einar Andri: Líður ekki vel þegar við erum ekki í takti í vörninni

„Mér fannst Stjarnan spila frábærlega og við vorum í basli með þá í vörninni allan tímann. Ég held að þetta sé í fyrsta sinn í vetur sem við fáum á okkur 30 mörk. Við reyndum ýmislegt en fátt gekk upp. En við héldum áfram og náðum í stig að lokum,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir jafnteflið við Stjörnuna.Hann var ekki sáttur við varnarleik Mosfellinga en sagði að sóknarleikurinn hefði verið góður.„Ég var virkilega ánægður með sóknina. Þegar boltinn gekk vorum við aldrei í basli. En okkar leikur gengur út á vörn og markvörslu og okkur líður ekki vel þegar við erum ekki í takti þar,“ sagði Einar Andri.Afturelding lenti mest fjórum mörkum undir í seinni hálfleik og þegar skammt var til leiksloka var Stjarnan tveimur mörkum yfir.„Við höfum verið góðir í lokin í vetur. Við skoruðum alltaf en ég var aðallega stressaður þegar þeir voru með boltann,“ sagði Einar Andri.Arnór Freyr Stefánsson náði sér ekki á strik í marki Aftureldingar. Einar Andri segir að það skrifist á slakan varnarleik.„Ég hefði viljað sjá betri varnarleik. Það er ekki hægt að skella skuldinni á Arnór. Hann ver alltaf þegar vörnin er góð. Hann hefur oft dregið okkur að landi. Þetta er samvinna,“ sagði Einar Andri að endingu.

Rúnar var sáttur með spilamennsku Stjörnunnar.vísir/bára
Rúnar: Sóknarleikurinn var frábær

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, var ánægður með frammistöðu sinna manna þótt hann hefði viljað taka tvö stig með heim í Garðabæinn.„Ég er pínu svekktur en svo getur maður horft á þetta þannig að við héldum boltanum og stiginu síðustu hálfu mínútuna og glutruðum þessu ekki frá okkur eins og við höfum áður gert í vetur,“ sagði Rúnar við Vísi eftir leik.„Við tökum stigið og höfum það hugfast að við vorum betri stærstan hluta leiksins. Við vorum með frábærar lausnir oft á tíðum.“Rúnar var heilt yfir sáttur yfir frammistöðu Stjörnunnar í leiknum.„Vörnin datt niður í seinni hálfleik en var mjög góð framan af. Sóknarleikurinn frábær, skipulagður og agaður,“ sagði Rúnar sem spilaði á fáum mönnum í leiknum, enda meiðslalisti Stjörnunnar langur.„Við erum með sjö menn meidda og ég var smá hræddur um að það myndi vanta upp á kraftinn undir lokin. En þeir höfðu gaman að þessu og sýndu vilja.“Rúnar er ánægður með framfarirnar sem Stjörnumenn hafa sýnt að undanförnu.„Þetta var ekkert heppnisstig. Við unnum fyrir þessu. Það er eitthvað að verða til og þetta er fínt,“ sagði Rúnar. Hans menn mæta Haukum í síðasta leiknum fyrir jólafrí.„Það var fínt að fá einn af þessum sjö meiddu inn í hópinn fyrir næsta leik á móti Haukum. Og ætli við verðum ekki fyrsta liðið sem vinnur þá,“ sagði Rúnar og glotti.

Tengd skjöl

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.