Handbolti

Seinni bylgjan: Drullið ykkur til baka

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
FH vann ÍR, 27-32, í Olís-deild karla í fyrradag. FH-ingar lögðu grunninn að sigrinum með frábærum fyrri hálfleik. Að honum loknum voru þeir ellefu mörkum yfir, 8-19.

Arnar Pétursson fór yfir fyrri hálfleikinn í Seinni bylgjunni í gær. Hann sagði að FH-ingar hefðu einfaldlega keyrt yfir ÍR-inga en ellefu af 19 mörkum þeirra í fyrri hálfleik komu eftir hraðar sóknir.

„Upplegg Bjarna [Fritzsonar, þjálfara ÍR] í leiknum var ekkert galið. En þeir skiluðu sér seint til baka og þeim var refsað aftur og aftur og aftur,“ sagði Arnar.

„ÍR-ingar lentu á vegg en drullið ykkur til baka. Komið ykkur heim.“

Jóhanni Gunnari Einarssyni fannst lítið til frammistöðu ÍR í leiknum koma.

„Miðað við hvað ÍR-ingar eru fljótir fram, þeir keyra alltaf hraða miðju, eru þeir ótrúlega seinir til baka. Mér FH-ingar geta labbað í gegnum í vörnina þeirra. Við erum ekki alveg á sömu blaðsíðu með þetta Arnar því mér fannst þeir svo lélegir,“ sagði Jóhann Gunnar.

„Þegar 15 mínútur voru búnar af fyrri hálfleik voru ÍR-ingar búnir að skora sex mörk sem er allt í lagi. Þeir skoruðu tvö mörk seinni 15 mínúturnar, bæði úr vítum. Þeir skoruðu ekki úr opnum leik í 15 mínútur.“

ÍR, sem hefur tapað tveimur leikjum í röð, er í 3. sæti Olís-deildarinnar með tíu stig.

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×