Handbolti

Seinni bylgjan: Alvöru blásari og alvöru ástríða hjá Snorra Steini

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson stýrði Valsliðinu til sigurs á móti ÍR.
Snorri Steinn Guðjónsson stýrði Valsliðinu til sigurs á móti ÍR. Vísir/Daníel
Tímabilið hefur ekki byrjað vel hjá Valsmönnum í Olís deild karla í handbolta og pressan hefur verið að aukast á Snorra Stein Guðjónsson þjálfara. Leikurinn á móti ÍR í síðustu umferð var lykilleikur í að snúa því við og það sáu Seinni bylgju menn á þjálfara Hlíðarendaliðsins.

„Við eigum Snorra Stein Guðjónsson. Hann var í essinu sínu eftir að Agnar Smári Jónsson fékk tvær mínútur fyrir vitlausa skiptingu,“ sagði Henry Birgir Gunnarsson, umsjónarmaður Seinni bylgjunnar.

„Snorri Steinn byrjar á því að láta Hlyn eftirlitsmann og Jón Karl dómara heyra það og svo lætur hann Agga heyra það fyrir vitlausu skiptinguna,“ sagði Henry og á meðan sjáum við þjálfara Valsmanna missa sig fyrir framan Agnar Smára.

„Þetta er alvöru blásari þarna hjá karlinum og hann er ekki búinn. Þetta er alvöru ástríða,“ sagði Henry Birgir.

Snorri Steinn endaði þetta reiðikast síðan á því að sparka brúsa í burtu.

„Ég held að þetta lýsi því svolítið hvað var mikið undir í þessu. Þetta var gríðarlega mikilvægt móment og þetta voru fáránlegar tvær mínútur,“ sagði Guðlaugur.

„Þetta voru alveg fáránlegar tvær mínútur því þeir voru komnir í dauðafæri hinum megin og þá kom flautið og allt varð vitlaust,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon og bætti við. „Þetta er bara ástríða og svona viljum við hafa þetta. Snorri vildi virkilega vinna þennan leik og það fór ekkert á milli mála,“ sagði Halldór Jóhann.

Það má sjá allt innslagið og öll viðbrögðin hjá Snorra Stein í myndbandinu hér fyrir neðan.



Klippa: Seinni bylgjan: Snorri Steinn missti sig



Fleiri fréttir

Sjá meira


×