Viðskipti innlent

Icelandair sendi jákvæða afkomuviðvörun í Kauphöll

Samúel Karl Ólason skrifar
Forsvarsmenn Icelandair Group gera ekki ráð fyrir MAX-vélunum aftur í rekstur fyrr en í lok febrúar en það þýðir að kostnaður við innleiðingu vélanna í flota félagsins að nýju falli ekki til á þessu ári.
Forsvarsmenn Icelandair Group gera ekki ráð fyrir MAX-vélunum aftur í rekstur fyrr en í lok febrúar en það þýðir að kostnaður við innleiðingu vélanna í flota félagsins að nýju falli ekki til á þessu ári. Vísir/Vilhelm
Horfur í rekstri Icelandair Group á árinu 2019 eru betri en gert hafði verið ráð fyrir en félagið sendi jákvæða afkomuviðvörun í Kauphöll í gærkvöldi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu þar sem einnig kemur fram að EBIT, afkoma án tillits til greiðslu vaxta og skatta, spá félagsins hafi verið uppfærð úr því að vera neikvæð um 70-90 milljónir dala í það að vera neikvæð um 35-55 milljónir. Þá sé tillit tekið til þegar áætlaðra nettó áhrifa kyrrsetningar Boeing 737 MAX flugvéla.

„Nú þegar uppgjör þriðja ársfjórðungs liggur að mestu leyti fyrir, er ljóst að EBIT og nettó afkoma á fjórðungnum er svipuð því sem hún var á sama tíma í fyrra, þrátt fyrir veruleg áhrif kyrrsetningar MAX véla á rekstur félagsins. Þá gerir félagið ráð fyrir betri afkomu á fjórða ársfjórðungi þessa árs en á sama fjórðungi í fyrra,“ segir í tilkynningunni.

Forsvarsmenn Icelandair Group gera ekki ráð fyrir MAX-vélunum aftur í rekstur fyrr en í lok febrúar en það þýðir að kostnaður við innleiðingu vélanna í flota félagsins að nýju falli ekki til á þessu ári. Hann flytjist fram á það næsta. Þó hafi gengið vel að draga úr áhrifum af kyrrsetningu vélanna að undanförnu og umbætur í leiðakerfi og bætt tekjustýring hafi skilað árangri.

„Í ljósi þessa, eru nettó fjárhagsleg áhrif MAX kyrrsetningarinnar nú metin á um 100-120 milljónir fyrir árið 2019. Sú fjárhæð hefur verið uppfærð með tilliti til fyrrgreindra þátta.“

Icelandair Group mun birta uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung eftir lokun markaða á fimmtudaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×