Viðskipti innlent

Dufl hlýtur Gul­leggið í ár

Atli Ísleifsson skrifar
Aðstandendur verkefnisins Dufl.
Aðstandendur verkefnisins Dufl. Icelandic Startups
Viðskiptahugmyndin Dufl sigraði Gulleggið í ár, en um er að ræða frumkvöðlakeppni Icelandic Startups.  Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Háskólanum í Reykjavík síðastliðið föstudagskvöld.

Í tilkynningu segir að Dufl, sem hefur þróað bættan staðsetningarbúnað fyrir sjó, hafi hlotið að launum 1,5 milljón króna í verðlaun og sérverðlaun í flokki „Vöru“ (e. product) sem fylgdu ráðgjafatímar hjá Marel og Hugverkastofunni.

Sigurvegararnir í flokkunum fjórum.Icelandic Startups
Gulleggið var fyrst veitt árið 2008 og var þá fyrsti formlegi vettvangurinn sem veitti aðstoð við að þróa áfram hugmyndir sem spruttu upp innan háskólanna. Í ár bárust 135 hugmyndir auk þess sem 20 einstaklingar skráðu sig til leiks án hugmyndar og áttu þess kost að taka þátt í verkefnum annarra.

„Önnur sérverðlaun hlutu eftirtaldir:

- Teymið GreenBytes í flokki „Grænna lausna“ (e. green) sem fékk að launum 150.000 kr. frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og ráðgjafatíma hjá KPMG. GreenBytes býður upp á hugbúnaðarlausn sem nýtir sölugögn með vitvélatækni (e. machine learning) til að minnka matarsóun og auka framlegð veitingastaða.

- Örmælir í flokki „Heilsu“ (e. health) sem fengu að launum 300.000 kr. í peningaverðlaun frá Landsbankanum, ráðgjafatíma hjá Össuri og samtalsleit einkaleyfa frá Hugverkastofunni. Lausn þeirra snýst um að mæla snertilaust mjög lítið vökvamagn fyrir rannsóknir í heilbrigðisvísindum.

- Statum, sem hannar gagnvirkan dómsal í sýndarveruleika til að undirbúa þolendur kynferðisofbeldis að fara fyrir dóm, hlaut verðlaun í flokki „stafrænna lausna“ (e. digital). Hlaut teymið að launum ráðgjöf hjá Origo og Advel lögmannsstofu.“

- Í kosningunni um Val fólksins sem fór fram á vefsvæði RÚV bar Vegangerðin sigur úr býtum. Vegangerðin framleiðir íslenskan grænan próteingjafa fyrir heimili og veitingastaði.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×