Viðskipti innlent

Ekki hræddar um að verða óvinkonur vegna fyrirtækisins

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Gyða Dröfn Sveinbjörnsdóttir og Þórunn Ívarsdóttir kynntust á námskeiði hjá WOW og hafa nú stofnað fyrirtækið Valhneta.
Gyða Dröfn Sveinbjörnsdóttir og Þórunn Ívarsdóttir kynntust á námskeiði hjá WOW og hafa nú stofnað fyrirtækið Valhneta.
Gyða Dröfn Sveinbjörnsdóttir og Þórunn Ívarsdóttir kynntust á flugfreyjunámskeiði hjá WOW fyrir nokkrum árum og hafa verið bestu vinkonur síðan.  Bæði Þórunn og Gyða Dröfn eru með þúsundi fylgjenda á Instagram og halda einnig úti bloggsíðum. Þær hafa báðar starfað með mörgum fyrirtækjum sem áhrifavaldar en núna eru þær færa hinu megin við borðið og stofnuðu sitt eigið fyrirtæki, sem selur sérvalin tréleikföng fyrir börn.

„Við kynntumst almennilega á flugfreyjunámskeiði WOW árið 2016,“ segir Gyða Dröfn um það hvernig vinskapurinn hófst. „Ég hafði samt einhvern tímann áður haft samband við Gyðu þegar ég var að vinna fyrir annað fyrirtæki og notaði hana sem áhrifavald, bað hana að gera „#samstarf“ verkefni. Þá bjó hún enn á Akureyri og mér fannst geggjað að ná mér í einhvern nýjan markhóp þar,“ segir Þórunn. Þær urðu mjög hratt bestu vinkonur og hafa WOW að þakka fyrir að hafa kynnst svona vel.

„Ég mætti fyrst, stundvísa vinkonan, og ég man að ég hugsaði hvað það væri týpískt ef einhver annar bloggari eins og Gyða Dröfn eða einhver myndi mæta líka. Þá labbar hún inn, ég er bara greinilega skyggn,“ segir Þórunn og hlær. „Það var líka algjör tilviljun að við skyldum hafa lent á sama námskeiði, það voru tíu námskeið eða eitthvað í gangi en við lendum á sama námskeiði,“ segir Gyða Dröfn.

„Við erum þarna saman frá fimm til tíu, upp á dag, í nokkra mánuði. Alla virka daga, sitjum hlið við hlið,“ segir Þórunn. „Við erum svona þægilegar vinkonur, það er ekkert drama, við erum bara voða líkar. Við eigum vel saman og svo búum við hlið við hlið.“

Þær Þórunn og Gyða Dröfn eru byrjaðar að flytja inn viðarleikföng frá Rússlandi.Mynd/Valhneta

Rölta á milli íbúða í mat

Þórunn og Gyða Dröfn búa í húsum hlið við hlið, það nálægt hvor annarri að það er ekki einu sinni eitt húsnúmer á milli þeirra. Þær segja þó að það hafi eiginlega verið tilviljun að þær enduðu sem nágrannar en báðar búa nú í Urriðaholtinu. „Ég er úr Garðabæ og Gyða Dröfn bjó í Garðabæ þegar við kynnumst og hún bjó í raun fimm húsum frá foreldrum mínum, sem var mjög mikil tilviljun. Hún sá mig oft labba úti með hundinn. Síðan langar okkur aftur í Garðabæ og þeim langar aftur í Garðabæ.“

Á meðan Þórunn og kærasti hennar voru að skrifa undir kaupsamninginn sinn þá plataði Gyða Dröfn kærastann sinn að fara á opið hús í Urriðaholtinu. Hún segist ekki hafa gert sér grein fyrir því þá að íbúðin var í næsta húsi við íbúð Þórunnar en var alveg heilluð að þessu hverfi.

„Við rákumst á þessa íbúð sem var einhvern vegin fullkomin fyrir okkur. Það endar þannig að við gerum tilboð, fáum samþykkt og allt gerðist mjög hratt,“ segir Gyða Dröfn. „Íbúðirnar eru samt það vel staðsettar að við sjáum ekki á milli og getum ekki verið að hnýsast allan daginn,“ bætir Þórunn við. Þær sjá hvor aðra samt reglulega frá bílaplaninu fyrir utan. 

„Þetta er voða notalegt, að geta rölt yfir í spil og matarboð.“

Staflturninn, Fjallalandslagið og Draumaregnboginn eru einföld leikföng en eiga að hvetja börnin til að halda áfram til að sjá hversu margar ólíkar útkomur er hægt að fá. Engin lokaútkoma er sú eina rétta og þannig er ekki keppst að því að fylgja mynd eða leiðbeiningum á kassa.Mynd/Valhneta

Vildu nota fylgi sitt á samfélagsmiðlum

Þórunn eignaðist sitt fyrsta barn síðasta haust og í fæðingarorlofinu voru þær vinkonurnar duglegar að fara í gönguferðir saman um hverfið, Gyða Dröfn með hundinn sinn og Þórunn með barnavagninn. Í einni af þessum gönguferðum í vor fengu þær svo þá hugmynd að stofna saman fyrirtæki.

„Við vorum eitthvað að ræða hvað okkur langaði báðum að stofna fyrirtæki, að eiga eitthvað sem væri okkar eigið.“

Báðar hafa þær verið í samstarfi við mörg fyrirtæki síðustu ár og kynnt þeirra vörur eða þjónustu á sínum samfélagsmiðlum. Þær fá þó bara fasta greiðslu fyrir slík verkefni, jafnvel þótt að þeirra umfjöllun valdi því að varan seljist upp á landinu.

„Maður fær kannski bara brotabrot greitt en svo seldust kannski 150 vörur. Okkur langar því að vera hinum megin við borðið líka,“ segir Þórunn. „Við vildum nota okkar samfélagsmiðla, með allt þetta fylgi, til að gera eitthvað og hafa jafnvel áhrif á eitthvað.“

Hjólin fóru strax að snúast. „Seinna sama dag sendir Þórunn á mig hugmynd og var þá búin að finna þetta merki sem við erum að fara að selja. Þá byrjar boltinn að rúlla og þetta gerist allt frekar hratt,“ segir Gyða Dröfn. Þórunn segir að þær hafi í kjölfarið haft samband við fyrirtækið og fengu strax svar til baka í byrjun apríl á þessu ári um að þær mættu panta.

„Við bara slógum til. Vörurnar eru löngu komnar til okkar en við vildum bíða eftir réttum tíma árs og vera búnar að undirbúa okkur vel.“

Þórunn segir að það hafi verið mikilvægt að leikföngin væru einnig falleg uppi í hillu.Mynd/Valhneta

Fann vörurnar í barnaherbergi í Ástralíu

Undirbúningurinn gekk alveg eins og í sögu en stelpurnar sögðu samt ekki vinkonum sínum frá þessu fyrr en í sumar.

„Fyrirtækið heitir Raduga Grez og er rússneskt og framleiðir handgerð leikföng úr tré. Það er mjög flottur boðskapur með þessu, þetta er allt eiturefnalaust og viðurinn er ekki lakkaður. Þetta er allt saman mjög náttúrulegt, bæði það sem er notað í leikföngin og hvernig þau líta út. Þau eru hönnuð með það í huga að þau séu opin og geti örvað sköpunargáfuna og ímyndunaraflið, það er engin ein rétt útgáfa,“ segir Gyða Dröfn.

„Eigandi fyrirtækisins er jafngömul mér og margra barna móðir,“ segir Þórunn. Hún rakst fyrst á merkið í hillu í barnaherbergi hjá ástralskri móður sem hún fylgir á Instagram, eftir það var ekki aftur snúið.

„Við ákváðum að gera okkar eigin vörumerki í kringum þetta sem við gætum svo stækkað til að fá önnur merki í sölu hjá okkur. Við byrjum bara með eitt vörumerki en síðan okkar heitir Valhneta.is“ segir Þórunn.

Nafnið kom frá parkettegund

Gyða Dröfn segir að þegar nafnið var valið hafi þær verið að leita sér að einhverju nafni sem væri vísun í þetta náttúrulega. „Við sjáum alveg fyrir okkur að bæta vörumerkjum við en við munum alltaf verða í sömu línu, sömu stefnu. Svona náttúrulegt og eco-friendly.“ Eftir nokkra hugmyndavinnu endar Þórunn á að leita að parkettegundum á netinu og fann þar orðið walnut eða valhneta.

„Ég sagði við hana í messenger, en hvað með Valhneta? Það var samt bara djók í fyrstu,“ segir Þórunn og hlær. Gyðu Dröfn fannst nafnið samt frábært og var nafnið þar með ákveðið í örstuttu Facebook spjalli.

„Eftir á fattaði ég að ef þú opnar valhnetu þá lítur hnetan svolítið út eins og mannsheili. Það er geggjað af því að við erum með leikföng sem eru þroskandi og þroska heilann. Ég fer svo að lesa mér til og kemst þá að því að valhnetur eru góðar fyrir heilann og heilastarfsemi. Þetta er fullkomið,“ segir Gyða Dröfn. Þórunn segir að sér hafi fundist skortur á leikföngum sem þessum á Íslandi.

„Opnum, fallegum leikföngum sem að mæður hafa jafn gaman af og börnin. Ég er ekki bara að velja þetta fyrir mig eða minn smekk, börnunum finnst ótrúlega gaman að leika með þetta. Það er líka gaman að raða þessu upp í hillu eða að hafa þetta inni í stofu af því að þetta er bara fallegt. Þessi leikföng eru alveg jafn falleg í leik og eftir leik.“

Grænmetissalatið er handunnið úr við, málað með eiturefnalausri vatnsmálningu og er ólakkað. Ævintýraskógurinn er gerður úr formum úr náttúrunni sem eiga að efla sjón barna. Töfrakubbarnir eru opið leikfang og með kubbunum er hægt að búa til hvað sem er. Einnig er góð hugmynd að nota þá í lærdómsleiki. Hylurinn á að örva börn sjónrænt því þau stafla, byggja og flokka og þau eldri geta þau búið til landslagt, byggt hella, göng, girðingar, hús fyrir dúkkur og dverga.Mynd/Valhneta

Reyna að vera skynsamar

Þórunn viðurkennir að hún skemmti sér mjög vel við að leika með dóttur sinni með þessi leikföng, það sé líka fínasta hugleiðsla að kubba og búa eitthvað til. „Ég las líka að of mikið af litum eins og eru á sumum leikföngum geta oförvað börn, það er of mikið stundum,“ útskýrir Þórunn en þær eru mjög ánægðar með mildu og náttúrulegu litina á vörunum. Leikföngin eru flest skráð fyrir börn frá þriggja ára aldri og upp úr. Þær segja þó að mörg þeirra henti börnum niður í eins árs aldri undir eftirliti foreldra.

„Við erum bara að gera þetta við tvær, með okkar eigin peningum. Við erum því bara að byrja þetta smátt til þess að koma þessu af stað“ segir Gyða Dröfn. Þær vinkonurnar gerðu sína eigin heimasíðu og vefverslun með aðstoð Youtube og opnaði hún á hádegi í dag. „Þetta er mjög heimilislegt og mjög krúttlegt. Við erum að reyna að vera mjög skynsamar.“

Til að byrja með ætla þær að sinna þessu meðfram öðrum verkefnum en vonast til að geta seinna einbeitt sér eingöngu að þessu og jafnvel opnað verslun. „Lagerinn er núna í þvottahúsinu mínu,“ segir Þórunn. Þær völdu sjö vörur til þess að byrja með í sölu og í lok október verða þær orðnar tólf.

„Ég er búin að vera mjög mikið í tölum og pappírsvinnu,“ segir Gyða Dröfn, hún viðurkennir að það sé fyndið í ljósi þess að hún lærði sálfræði en Þórunn viðskiptafræði. Þórunn bjó til heimasíðuna þeirra á meðan litla stelpan hennar svaf á daginn í sumar. Allt hefur þetta einhvern vegin gengið upp. Þær notuðu bæði reynslu sína og þekkingu af samfélagsmiðlum til þess að undirbúa opnunina. 

„Við nýtum okkar markaðskrafta vel saman,“ segir Þórunn.

Gyða Dröfn og Þórunn eru spenntar að sjá hvaða viðbrögð þær fái við netverslun sinni. Þær vonast til þess að geta opnað verslun í framtíðinni þar sem viðskiptavinir geti skoðað vörurnar. Vísir/Vilhelm

Aldrei neitt drama

Gyða Dröfn hætti hjá WOW fyrir tveimur árum og starfar í dag sem vörumerkjastjóri hjá Danól og Þórunn var að klára eins árs fæðingarorlofið sitt núna um mánaðamótin. Á meðan hún var í orlofi fór WOW á hausinn svo hún þurfti að finna sér nýtt starf fyrir haustið.

„Ég varð að finna mér eitthvað annað að gera eftir fæðingarorlof,“ segir Þórunn. Hún segist hafa  verið óbeint búin að ákveða að fara ekki aftur að fljúga og vildi þess í stað gera eitthvað sjálf. Umhverfisvæn barnaleikföng virtist svo mjög rökrétt skref.

„Það er svo umhverfisvænt að þetta erfist á milli kynslóða og öll börnin á heimilinu geta leikið með þessi leikföng. Þau eyðast sjálf upp í náttúrunni,“ segir Þórunn. „Við rennum svolítið blint í sjóinn með þetta en við höfum samt trú á þessu verkefni,“ bætir Gyða við. Þær viðurkenna samt báðar að það sé stressandi að fara af stað með svona verkefni.

„Stundum hugsa ég, er einhver að fara að kaupa af okkur eða erum við að fara að sitja fyrir framan tölvuna eftir að við opnum og ekkert gerist. En ég er komin á annan stað núna, við erum búin að fá svo góð viðbrögð að það er ótrúlegt,“ segir Þórunn.

Þær voru aldrei hræddar um að þetta gæti komið upp á milli þeirra eða haft áhrif á vinskapinn.

„Þetta hefur verið mjög þægilegt ferli,“ segir Gyða Dröfn. „Það er aldrei neitt drama, ef að það er eitthvað þá bara segjum við það og vinnum úr því. Ef það er eitthvað þá þarf að segja það strax, annars byggist það upp. Ég hef litlar áhyggjur af því að við endum sem óvinkonur.“ Þórunn tekur undir það og bætir við að það hjálpi til að þekkjast svona ótrúlega vel og kunna inn á hvor aðra.

„Við bara erum í takt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×