Viðskipti innlent

Arion banki skoðar að færa markaðsviðskiptin í sérstakt félag  

Hörður Ægisson skrifar
Arion banki.
Arion banki. FBL/STEFÁN
Arion banki er nú með það til skoðunar að færa markaðsviðskipti bankans, sem sinnir meðal annars miðlun á verðbréfum og gjaldeyri fyrir viðskiptavini, yfir í sérstakt félag.

Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion, staðfestir þetta í svari til Markaðarins. „Á næstu vikum og mánuðum þá munum við skoða kosti þess að setja markaðsviðskiptin í sérstakt félag sem yrði þá dótturfélag bankans,“ segir Haraldur.

Hann tekur hins vegar fram að engar ákvarðanir hafi enn verið teknar en að bankinn muni skoða kosti og galla þessarar hugmyndar á næstunni.

Verði niðurstaðan sú að færa markaðsviðskipti bankans í sérstakt dótturfélag mun Arion banki einnig horfa til þess, samkvæmt heimildum Markaðarins, að bjóða tiltekinn hluta félagsins til sölu til handa lykilstarfsmönnum á sviði verðbréfamiðlunar þannig að þeir yrðu hluthafar á móti bankanum.

Tilkynnt var um viðamiklar skipulagsbreytingar og hagræðingaraðgerðir hjá Arion banka í lok síðustu viku, sem fólu meðal annars í sér að hundrað starfsmönnum var sagt upp, og samkvæmt nýju skipuriti bankans færðust markaðsviðskipti undir nýtt svið, Markaði, en þau tilheyrðu áður fjárfestingarbankasviði.

Við þær breytingar fækkaði starfsmönnum markaðsviðskipta um liðlega helming og eru þeir núna átta talsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×