Viðskipti innlent

Bein út­sending: Kynna leiðir til að efla ferða­þjónustu á lands­byggðinni

Atli Ísleifsson skrifar
Ferðamenn á Egilsstöðum í sumar.
Ferðamenn á Egilsstöðum í sumar. vísir/vilhelm
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, mun kynna hugmyndir samtakanna um tíu leiðir til að efla ferðaþjónustu á landsbyggðinni klukkan 10:30 í dag. Sýnt verður beint frá fundinum á Vísi.

Í tilkynningu frá SAF segir að á síðustu tíu árum hafi uppbygging ferðaþjónustu um allt land leitt af sér meiri og fjölbreyttari uppbyggingu atvinnutækifæra, betri lífskjör og meiri möguleika til þróunar og styrkingar fjölda samfélaga fjarri höfuðborgarsvæðinu en áratugina þar á undan.

Hægt verður að fylgjast með fundinum að neðan, en fundurinn hefst klukkan 10:30.

„Vegna breytinga á samkeppnisstöðu áfangastaðarins Íslands hefur samsetning ferðamanna og ferðahegðun á Íslandi hins vegar tekið breytingum og slíkar sveiflur í samhengi við síaukinn kostnað og erfitt rekstrarumhverfi fyrirtækja þrengja ekki síst að ferðaþjónustufyrirtækjum á svæðum utan höfuðborgarsvæðisins.

Það er mikið hagsmunamál fyrir íslenska ferðaþjónustu, og samfélagið í heild, að rekstrargrundvöllur fyrir ferðaþjónustufyrirtæki um allt land sé góður, allt árið um kring. Það er nauðsynlegt fyrir vöruþróun og nýsköpun í greininni, auk þess sem það styður markmið um áframhaldandi styrkingu byggða, uppbyggingu heils árs atvinnutækifæra og dreifingu álags vegna umferðar ferðamanna um landið,“ segir í tilkynningunni frá samtökunum.

Þar segir enn fremur að tillögunum sé ekki ætlað að vera tæmandi heldur benda á ýmislegt sem sé hægt og þarft að gera. Aðgerðir þessar krefjist náinnar samvinnu hins opinbera og atvinnugreinarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×