Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Espanyol 1-3 | Stjarnan skoraði gegn spænska stórliðiðinu

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
Úr leik kvöldsins.
Úr leik kvöldsins. vísir/daníel
Stjarnan tapaði 1-3 fyrir spænska liðinu Espanyol í kvöld þegar liðin mættust í seinni leik liðanna í 2.umferð forkeppni Evrópudeildarinnar á Samsung vellinum í kvöld.

 

Það tók gestina ekki langan tíma að skora fyrsta markið í leiknum en það kom strax á 5.mínútu þegar vinstri kantmaður þeirra, Adriá Pedrosa skoraði laglegt mark. Hann hreinlega sólaði sig í gegnum vörn Stjörnumanna og var kominn einn á móti markmanni og hann átti ekki í miklum erfiðleikum með að koma boltanum framhjá Haraldi Björnssyni í marki Stjörnunnar.

 

Stjörnumenn gerðu sitt besta í að reyna jafna metin og þeir fengu gullið tækifæri til þess á 18.mínútu þegar brotið var á Heiðari Ægissyni inn í teig gestanna. Hilmar Árni Halldórsson fór á vítapunktinn en hann fór illa með tækifærið og setti boltann yfir markið! Annað vítið sem fer forgörðum í Evrópdeildinni hjá Hilmari Árna í ár. 

 

Alex Þór Hauksson átti eina fína tilraun fyrir heimamenn fyrir lok hálfleiksins en það gestirnir leiddu með einu marki gegn engu í hálfleik.

 

Stjörnumenn byrjuðu betur í síðari hálfleik en það kom eins og algjört kjaftshögg þegar gestirnir frá Katalóníu bættu við öðru markinu en þá skoraði framherjinn Borja Iglesias eftir flotta sendingu inn fyrir vörn Stjörnumanna.

 

Rúnar Páll henti í tvöfalda skiptingu á 70.mínútu og reyndi að fríska upp á sóknarleik sinna manna. Það gekk ekki sem skildi til að byrja með og gestirnir bættu við þriðja markinu á 79.mínútu en þar var að verki Facundu Ferreyra. Hann fékk sendingu frá Oscar Melondo, lét vaða rétt fyrir utan teig og boltinn í stöngina og inn, frábær afgreiðsla hjá Ferreyra.

 

Skemmtuninni í Garðabænum var þó ekki lokið því heimamenn náðu inn einu marki en það kom á 87.mínútu þegar Baldur Sigurðsson skoraði. Nimo Gribenco átti þá flotta fyrirgjöf sem Baldur skallaði í varnarmann og inn! Vel gert hjá Baldri. Stuttu síðar flautaði góður dómari leiksins til leiksloka og sanngjarn sigur Espanyol.

 

Af hverju vann Espanyol?

Það er ekki að ástæðulausu að þetta lið hafnaði í 7.sæti í spænsku deildinni. Það eru mikil gæði í þessu liði og þegar heimamenn gerðu mistök þá var þeim refsað. Þeir voru kannski ekki að setja allt í leikinn en þegar þeir skiptu um gír þá voru þeir gífurlega öflugir.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Oscar Melondo á miðjunni átti flottan leik í kvöld, hann stjórnaði spili liðsins vel en þessi drengur er aðeins 21 árs gamall. Hann átti vart feilsendingu og lagði upp þriðja markið.

 

Báðir framherjarnir skoruðu einnig en þeir þurftu ekki mörg færi til þess. Borja Iglesias skoraði 17 mörk í fyrra á Spáni og það er ekki að ástæðulausu.

 

Hvað gekk illa?

Stjörnumenn voru meira með boltann en í útileiknum og komust oft á tíðum í góð tækifæri. Því miður voru þeir allt of oft að tapa skallaeinvígjum og þeim tókst ekki að gera nóg úr bæði hornspyrnum og löngum innköstum. Það verður að nýta föstu leikatriðin betur.

 

Hvað gerist næst?

Espanyol er komið í þriðju umferðina þar sem þeir mæta Luzern frá Sviss.

 

Stjörnumenn eru úr leik í Evrópudeildinni þetta árið en þeir taka á móti Víkingum næstkomandi miðvikudag.

 

Rúnar Páll: Eigum langt í land

Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar var hrikalega ánægður með frammistöðu sinna manna þrátt fyrir tap liðsins gegn Espanyol í kvöld.

 

„Verkefnið var stórt fyrir okkur en ég var hrikalega ánægður með frammistöðu liðsins í dag. Við náðum að fara aðeins á þá og pressa þá aðeins og við héldum boltanum ágætlega.”

 

„Við gerðum það sem var lagt upp með og strákarnir stóðu sig vel en í mörkunum er okkur bara refsað fyrir þau mistök sem við gerum. Þeir eru bara heilt yfir betri en við í fótbolta en við sýndum karakter og það var gaman og mikilvægt fyrir okkur að ná að skora.”

 

Hann var sammála því að það hafi verið svekkjandi þegar Hilmar Árni klúðraði vítinu.

 

„Auðvitað var það svekkjandi en svona er þetta bara. Hilmar er mannlegur og getur klikkað á vítaspyrnum eins og allir aðrir. Það hefði verið skemmtilegra að komast í 1-1 og sjá hvernig leikurinn hefði þróast þá.”

 

Rúnar segir það alveg klárt mál að þessar evrópuferðir þjappi liðinu saman og hjálpi þeim í komandi baráttu í deildinni.

 

„Alveg klárt mál. Þetta þrýstir okkur vel saman og gefur okkur byr undir báða vængi. Þetta er gríðarlega skemmtilegt og þéttir liðsheildina mikið.”

 

Rúnar sagði að lokum að það þurfi margt sem þurfi að breytast ef íslensk lið ætli sér að ná lengra í evrópukeppni.

 

„Það væri voðalega gaman að hafa fulla atvinnumennsku og lengra tímabil og eitthvað slíkt en það er bara svo margt sem þarf að breytast í umhverfinu okkar til að því verði. Ekki bara að leikmenn verði á hærri launum og hafi þetta að atvinnu allan daginn.”

 

„Ég held að umgjörðin hjá félögunum sé bara ábótavant og allt í kringum lið, bæði markaðsetning og stjórn þar að segja þeir sem vinna í kringum félagið. Aðbúnaður og annað slíkt, þetta þarf allt að haldast í hendur og því miður eigum við ennþá langt í land þegar kemur að þessu,” sagði Rúnar Páll að lokum.

 

Baldur Sig: Meira pirraður að fá ekki að byrja leikinn

Baldur Sigurðsson markaskorari Stjörnunnar í kvöld var svekktur með tap sinna manna gegn Espanyol í kvöld og sagði þá einfaldlega hafa verið að mæta sterkara liði.

 

„Við vorum bara að mæta betra liði. Fyrsta markið var full auðvelt, við hefðum viljað halda núllinu lengur. Hann labbaði bara í gegn en svo var þetta óheppni með vítið hjá Hilmari. Það hefði gefið okkur mikið að ná að jafna og fá aukakraft en eftir það sýna þeir bara gæði sín og þetta var bara sanngjarnt.”

 

Hilmar Árni klikkaði tveimur vítaspyrnum í Evrópudeildinni í sumar en Baldur sagði alls ekki ástæða til að skipta um vítaskyttu hjá liðinu þrátt fyrir það.

 

„Nei það held ég ekki, hann skorar bara úr því næsta. Hann er sennilega ein besta vítaskytta landsins og frábær karakter þannig ég held að þetta hafi nú lítil áhrif á hann.”

 

Þrátt fyrir að hafa skorað í kvöld var Baldur ekki svo ánægður með markið og sagði það líklega skipta litlu sem engu.

 

„Þetta er nú ekki fyrsta markið sem ég skora í Evrópukeppni en ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá var ég meira pirraður að fá ekki að byrja leikinn. Markið skiptir svo sem engu, við töpum einvíginu 7-1 þannig ég er ekkert hoppandi kátur.”

 

Hann var sammála því að liðið þurfi að einbeita sér að deildinni og að það sé lykilatriði fyrir félagið að tryggja sér evrópusæti.

 

„Engin spurning, þegar þú færð svona lið þá er ekki erfitt verkefni að mótivera sig. Leikurinn úti var þvílíkt ævintýri og báðar þessar ferðir, til Eistlands og Spánar og að fá þessi lið hingað er geggjað.”

 

„Nú eru 8 leikir eftir og við þurfum eitthvað að safna í pokann í ágúst. Núna fáum við smá helgarfrí. Það er búið að vera fullt af leikjum og mikið álag. Við hlökkum til að fá hörkulið Víkings í heimsókn í næstu viku.”

 

Baldur var að lokum spurður hvað honum finnist íslensku liðin þurfa að gera til að ná betri árangri í evrópu og komast nær því að komast í riðlakeppni.

 

„Til að ná meiri árangri þá segir það sig kannski aðeins sjálft, það þarf meira fjármagn til að fá betri leikmenn og einnig til að geta æft eins og atvinnumenn. Hinsvegar eru ungir strákar orðnir gríðarlegir atvinnumenn í dag og allt öðruvísi heldur en þegar ég var ungur.”

 

„Þeir hugsa þvílíkt vel um sig og eru miklu meira með atvinnumannahugsun. Ég held að þetta eigi eftir að koma og ef við erum að tala um að komast í riðlakeppni þá snýst þetta líka svolítið um heppni.”

 

„Við vorum eina liðið í efra styrkleikaflokki og fengum þá auðveldari andstæðing og við fórum áfram. Svo kemur næsta lið og það er Espanyol, það er alltaf gaman að mæta svona liðum en þú vilt samt alltaf eiga séns, raunhæfan möguleika að geta komist áfram. Þú vilt fá þessi lið sem eru ekki eins góð og við eigum ekki að geta unnið svona lið eins og Espanyol. Þetta snýst gríðarlega mikið um heppni, hverjum þú mætir,” sagði Baldur að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira