Viðskipti innlent

Máli gegn félagi Samherja í Namibíu vísað frá

Kjartan Kjartansson skrifar
Togarar við strönd Namibíu. Myndin er úr safni og tengist ekki efni fréttarinnar.
Togarar við strönd Namibíu. Myndin er úr safni og tengist ekki efni fréttarinnar. Vísir/Getty
Dómari í Namibíu vísaði frá máli fyrrverandi samstarfsaðila félaga í eigu Samherja í gær. Málið tengdist deilum um sölu á fiskiskipi í sameiginlegri eigu þeirra. Stefnendurnir þurf að greiða félagi Samherja allan málskostnað.

Tvö útgerðarfélög sem unnu með Esju Holding, félagi í samstæðu Samherja, í Namibíu stefndu því og Heinaste Investment Namibia, sameiginlegu félagi þeirra, til að koma í veg fyrir sölu á fiskiskipinu Heinaste. Vildu þau fresta boðuðum hluthafafundi þar sem fjalla átti um sölu á skipinu.

Arna McClure, innanhússlögmaður Samherja, staðfestir við Vísi, að kröfum samstarfsfélaganna fyrrverandi hafi verið vísað frá dómi í gærmorgun. Dómarinn hafi haft heimild til að meta málflutninginn í tvo sólahringi en hafi komist að niðurstöðu eftir klukkustundar umþóttun.

Segist hún búast við því að hluthafafundurinn geti nú farið fram og að ágóði af sölu skipsins verði skipt eins og honum eigi að skipta.

Esja Holding átti í samstarfi við innlendu útgerðirnar tvær um veiðar í Suður-Atlantshafi undan ströndum Namibíu frá árinu 2013. Það var hluti af átaki þarlendra stjórnvalda til að gefa innlendum fyrirtækjum tækifæri til að læra af reynslu erlendra útgerða. Samstarfssamningurinn rann út um áramótin og verður ekki endurnýjaður.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×