Viðskipti innlent

Stoðir bæta við hlut sinn í Símanum

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Stoðir hófu að fjárfesta í Símanum í vor.
Stoðir hófu að fjárfesta í Símanum í vor. Fréttablaðið/Anton Brink
Stoðir hafa bætt við sig í Símanum með kaupum á um 1,4 prósenta hlut í fjarskiptafélaginu að virði um 570 milljónir króna miðað við núverandi gengi hlutabréfa félagsins. Þetta má lesa út úr nýjum lista yfir stærstu hluthafa Símans.

Í kjölfar kaupanna fara Stoðir, sem eru eitt stærsta fjárfestingafélag landsins, með ríflega 9,5 prósenta hlut í fjarskiptafélaginu en eignarhluturinn er metinn á tæplega 3,9 milljarða króna.

Á móti hefur hlutur Kviku banka í Símanum minnkað á sama tíma um sem nemur tæplega einu prósenti af hlutafé félagsins og er núna 2,9 prósent en bankinn heldur á þeim bréfum að stórum hluta fyrir viðskiptavini sína.

Stoðir hófu sem kunnugt er að fjárfesta í Símanum í apríl síðastliðnum en fram kom í flöggunartilkynningu sem barst Kauphöllinni í fyrri hluta maímánaðar að fjárfestingafélagið hefði eignast rúmlega átta prósenta hlut í fjarskiptafélaginu.

Stoðir eru nú þriðji stærsti hluthafi Símans á eftir Lífeyrissjóði verslunarmanna og Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins en félagið er langsamlega stærsti einkafjárfestirinn í hluthafahópi fjarskiptafélagsins og raunar eini slíki fjárfestirinn í hópi tuttugu stærstu hluthafa þess.

Hlutabréf í Símanum hafa hækkað um fjórtán prósent í verði á undanförnum tveimur mánuðum og stóð gengi þeirra í 4,52 krónum á hlut við lokun markaða síðdegis í gær.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×