Viðskipti innlent

Bókunarþjónusta í 270 milljóna þrot

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fram til ársins 2017 rak Iceland Travel Assistance upplýsingamiðstöð við Aðalstræti.
Fram til ársins 2017 rak Iceland Travel Assistance upplýsingamiðstöð við Aðalstræti. FBL/anton
Kröfur í þrotabú bókunar- og upplýsingaþjónustunnar Iceland Travel Assistance, sem tekið var til gjaldþrotaskipta í mars á síðasta ári, námu rúmum 268 milljónum króna. Skiptum í búið lauk nú í júnílok og segir í Lögbirtingablaðinu að þeim hafi lokið með úthlutunargerð úr búinu. Alls hafa fengist næstum 3 prósent upp í forgangskröfur, eða rúmar 960 þúsund krónur, en að ekkert hafi fengist greitt upp í aðrar kröfur.

Iceland Travel Assistance sérhæfði sig í bókunum hjá öðrum fyrirtækum í íslenskri ferðaþjónustu. Fyrirtækið rak meðal annars Upplýsingamiðstöð ferðamanna við Aðalstræti í samstarfi við Reykjavíkurborg fram til ársins 2017, þegar Guide to Iceland hreppti samninginn. Af því tilefni flutti þjónustan í Ráðhús Reykjavíkur. Þegar mest lét rak ITA sex útibú í Reykjavík og voru starfsmenn á þriðja tug.

Guðmundur Ásgeirsson, sem yfirleitt er kenndur við skipafélagið Nesskip, á félagið Hlér ehf. sem fór með 100% eignarhlut í Iceland Travel Assistance. Síðasti aðgengilegi ársreikningur ITA sýnir að hagnaður félagsins árið 2016 hafi numið um 73 milljónum króna, eftir að hafa skilað 2 milljóna tapi árið áður. Tekjur félagsins voru alls 703 milljónir króna og jukust úr 518 milljónum árið áður. Hins vegar jukust útgjöld félagsins umtalsvert á milli sömu ára, eða úr 520 milljónum árið 2015 upp í 629 milljónir árið eftir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×