Viðskipti innlent

Sigríður leysir Þorstein af sem forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigríður Ingvarsdóttir þekkir vel til hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands enda gegnt stöðu framkvæmdastjóra þar.
Sigríður Ingvarsdóttir þekkir vel til hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands enda gegnt stöðu framkvæmdastjóra þar.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur sett Sigríði Ingvarsdóttur í embætti forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, frá og með 1. júní.

Þorsteinn I. Sigfússon, hefur fengið 12 mánaða leyfi frá starfi forstjóra frá sama tíma. Þorsteinn mun á þessu tímabili vinna að rannsóknar- og þróunarverkefni sem miðar að því að umbreyta CO2 útblæstri í eldsneyti.

Þorsteinn hefur gegnt stöðu forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands frá stofnun árið 2007 og Sigríður hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra stofnunarinnar á sama tíma.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands er ríkisstofnun og heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Hlutverk miðstöðvarinnar er að hvetja til nýsköpunar í íslensku atvinnulífi með virkri þátttöku í rannsóknarverkefnum og stuðningi við frumkvöðla og fyrirtæki. Undir stofnunina heyrir jafnframt Rannsóknastofa byggingariðnaðarins.

Hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands starfa tæplega 90 manns víða um land en höfuðstöðvar eru í Keldnaholti í Reykjavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×