Körfubolti

Lakers líklegast til að verða meistari samkvæmt veðbönkum vestanhafs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Verðandi samherjarnir Anthony Davis og LeBron James.
Verðandi samherjarnir Anthony Davis og LeBron James. vísir/getty
Í gær bárust þær fréttir frá Bandaríkjunum að Anthony Davis væri á leið til Los Angeles Lakers þar sem hann mun spila með LeBron James.



NBA-véfréttin Adrian Wojnarowski greindi fyrstur frá tíðindunum. Í staðinn fyrir Davis fær New Orleans Pelicans Lonzo Ball, Josh Hart, Brandon Ingram og þrjá valrétti í 1. umferð nýliðavalsins.



Veðbankar í Las Vegas voru ekki lengi að taka við sér eftir tíðindi gærdagsins. Samkvæmt mörgum þeirra er Lakers nú líklegast til að verða NBA-meistari á næsta ári.

Los Angeles Clippers og Milwaukee Bucks koma þar á eftir og svo Houston Raptors og nýkrýndir meistarar Toronto Raptors. Veðbankar virðast ekki hafa mikla trú á Golden State Warriors sem verður væntanlega án Kevins Durant og Klays Thompson stóran hluta næsta tímabils.



Þrátt fyrir að hafa fengið James komst Lakers ekki í úrslitakeppnina á síðasta tímabili. Lakers hefur ekki komist í úrslitakeppnina síðan tímabilið 2012-13.

Davis, sem var valinn fyrstur í nýliðavalinu 2012, hefur verið einn besti leikmaður NBA-deildarinnar undanfarin ár. Á síðasta tímabili var hann með 25,9 stig, 12,0 fráköst og 3,9 stoðsendingar að meðaltali í leik. New Orleans komst ekki í úrslitakeppnina.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×