Skoðun

75 ára afmæli lýðveldisins

Lilja Alfreðsdóttir skrifar

Við minnumst 75 ára afmælis íslenska lýðveldisins í dag.



Þegar við hugsum til þess sem helst hefur mótað lýðveldið okkar og það sem skilgreinir okkur sem þjóð er ljóst að menningin, tungumálið og bókmenntirnar eru í lykilhlutverki. Í sjálfstæðisbaráttunni var þjóðtungan ein helsta röksemd þess að Íslendingar væru sérstök þjóð og sjálfstæðiskröfur okkar réttmætar. Tungumálið er þannig lykillinn að sjálfsmynd okkar og líkt og lýðræðið stendur íslenskan á ákveðnum tímamótum. Hvorugt ættum við að álíta sjálfsagðan hlut, hvorki þá né í dag.



Við getum horft til afmælisbarns dagsins, Jóns Sigurðssonar forseta, í því samhengi. Hann hafði djúpstæð áhrif á Íslandssöguna sem fræði- og stjórnmálamaður, og fræðistörfin mótuðu um margt orðræðu hans á vettvangi stjórnmálanna. Hann var óhræddur við að vera á öndverðri skoðun en samtímamenn sínir, hann beitti gagnrýninni hugsun – rökum og staðreyndum, í sínum mikilvæga málflutningi. Það var raunsær hugsjónamaður sem kom okkur á braut sjálfstæðis. Gagnrýnin hugsun er að mínu mati það sem einna helst mun stuðla að jákvæðri þróun þessara tveggja lykilþátta; lýðræðisins og tungumálsins. Lýðræðið gerir okkur að frjálsum borgurum og veitir okkur tækifæri til virkrar þátttöku í mótun samfélagsins. Að sama skapi hvílir á okkur mikil ábyrgð vegna þessa og það er skylda okkar að afla þekkingar á málefnum líðandi stundar til styrkja lýðræðið. Það sem helst vinnur gegn framförum hvers samfélags er áhuga- og afskiptaleysi. Virk þátttaka og rýni til gagns skila okkur mestum árangri, hvort sem verkefnin eru lítil eða risavaxin.



Sú staðreynd að við getum fjölmennt á samkomur víða um land til þess að fagna þessum merka áfanga í sögu þjóðarinnar er ekki sjálfgefin. Sú elja og þrautseigja sem forfeður okkar sýndu í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar lagði grunninn að þeim stað sem við erum á í dag. Það er okkar og komandi kynslóða að halda áfram á þeim grunni. Ég óska okkur öllum til hamingju með 75 ára afmæli lýðveldisins Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×