Viðskipti innlent

Fara með meirihluta í hótelinu við Hörpu

Stefnt er að opnun hótelsins næsta vor, tveimur árum síðar en upphaflega var áætlað.
Stefnt er að opnun hótelsins næsta vor, tveimur árum síðar en upphaflega var áætlað. vísir/vilhelm

Íslenskir einkafjárfestar og lífeyrissjóðir fara nú með meirihluta hlutafjár í félagi sem stendur að byggingu fimm stjörnu Marriott Edition-hótels sem rís nú við hlið Hörpu í Austurhöfn. Hópurinn, sem er undir forystu framtakssjóðs í rekstri Stefnis, lagði félaginu til tæpa 1,3 milljarða króna í nýtt hlutafé í fyrra og eignaðist þá 66 prósenta hlut í verkefninu.

Samkvæmt heimildum Markaðarins er áformað að endanlegur hlutur Íslendinganna í verkefninu – í gegnum félagið Mandólín – verði um 70 prósent á móti 30 prósenta hlut bandaríska fasteignaþróunarfélagsins Carpenter & Company.

Íslensku fjárfestarnir lögðu fyrr á árinu Cambridge Plaza Venture Company, móðurfélagi hótelfélagsins, til um sex milljónir dala, jafnvirði um 740 milljóna króna, í nýtt hlutafé, eftir því sem heimildir Markaðarins herma, en þeir hafa skuldbundið sig til að setja 14 milljónir dala, ríflega 1,7 milljarða króna, til viðbótar í félagið.

Skuldbinding Mandólíns gagnvart verkefninu var aukin um 11 milljónir dala í lok síðasta árs, að því er fram kemur í nýbirtum ársreikningi félagsins, og er heildarskuldbinding þess því nú allt að 42 milljónir dala eða sem jafngildir tæplega 5,2 milljörðum króna miðað við núverandi gengi.

Carpenter & Company, sem íslenski fjárfestirinn Eggert Þór Dagbjartsson er hluthafi í, lagði stærstan hluta af eiginfjárframlagi sínu í hótelverkefnið á fyrstu stigum þess og fór sem dæmi með 61,5 prósenta hlut í framkvæmdinni í lok árs 2016. Í kjölfar síðustu hlutafjáraukningar í hótelinu hafa íslensku fjárfestarnir hins vegar eignast ríflegan meirihluta í verkefninu.

Ef miðað er við að heildarfjárfesting Mandólíns fyrir 70 prósenta hlut í verkefninu verði 42 milljónir dala, eins og skuldbinding félagsins hljóðar upp á, munu eigendur hótelfélagsins leggja því til alls um 60 milljónir dala, jafnvirði 7,4 milljarða króna, en verkefnið er að öðru leyti fjármagnað með lánsfé. Arion banki er sem kunnugt er aðallánveitandi að verkefninu og var jafnframt meðal stærstu eigenda lóðarinnar sem lögð er undir hótelið.

Stærsti hluthafi Mandólíns með helmingshlut er framtakssjóðurinn SÍA III, sem er í rekstri Stefnis, dótturfélags Arion banka, en í hluthafahópi sjóðsins eru einkum íslenskir lífeyrissjóðir og tryggingafélög.

Næststærstu hluthafar Mandólíns, með 12,5 prósenta hlut hvor, eru félögin Snæból og Stormtré en fyrrnefnda félagið er í jafnri eigu hjónanna Finns Reyrs Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur og það síðarnefnda í eigu Hreggviðs Jónssonar, aðaleiganda Veritas Capital.

Þá fer Vitinn Reykjavík, sem er að stærstum hluta í eigu viðskiptafélaganna Jónasar Hagan Guðmundssonar og Gríms Garðarssonar, með 9,4 prósenta hlut, Almenni lífeyrissjóðurinn með 6,2 prósent, Festa lífeyrissjóður 5,4 prósent og loks heldur Feier, félag hjónanna Hjörleifs Jakobssonar og Hjördísar Ásberg, á 4,1 prósents hlut.

Upphaflega stóð til að opna hótelið í fyrra en Richard L. Friedman, forstjóri og aðaleigandi Carpenter & Company, og Daniel Flannery, framkvæmdastjóri Edition-hótela Marriott, sögðu í samtali við Fréttablaðið um síðustu helgi að nú væri stefnt að opnun næsta vor. Samið hefur verið til 50 ára við Marriott Edition sem mun sjá um reksturinn.

Spurður um kostnaðinn við framkvæmdirnar sagði Friedman að bygging fimm stjörnu hótela fæli í sér áskoranir og því hefðu erlendir sérfræðingar verið kallaðir til starfa með hinum íslensku.

„Íslenskir verktakar hafa ekki byggt fimm stjörnu hótel áður. Það gefur augaleið. Það er allt öðruvísi en að byggja íbúðablokk eða skrifstofubyggingu. Þannig að það hefur verið áskorun,“ sagði hann.

Þrátt fyrir tafir og kostnaðarauka sagðist Friedman hins vegar vera brattur. „Þegar allt kemur til alls hef ég ekki áhyggjur.“ hordur@frettabladid.is, kristinningi@frettabladid.isAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
EIM
2,64
22
261.354
ICEAIR
1,56
9
81.326
REGINN
1,4
16
446.712
EIK
1
14
287.832
LEQ
1
2
1.000

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
VIS
-3,16
10
134.290
SJOVA
-2,45
5
162.100
MAREL
-1,97
18
936.827
SIMINN
-1,66
6
156.170
FESTI
-1,5
6
255.290
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.