Viðskipti innlent

Færri Wow-liðar atvinnulausir

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Ein farþegaþota WOW air á Keflavíkurflugvell í mars síðastliðnum.
Ein farþegaþota WOW air á Keflavíkurflugvell í mars síðastliðnum. Fréttablaðið/Ernir
Milli mánaðanna apríl og maí hefur fækkað um sextíu í hópi þeirra fyrrverandi starfsmanna WOW air sem skráðir eru atvinnulausir hjá Vinnumálastofnun.

Að því er fram kemur í minnisblaði sem Vinnumálastofnun tók saman í síðustu viku að beiðni félagsmálaráðuneytisins voru það alls 780 starfsmenn WOW air sem sóttu um atvinnuleysisbætur eftir fall fyrirtækisins í lok mars.

„Af þeim fengu 680 atvinnuleysisbætur greiddar fyrir aprílmánuð. Í dag eru 621 fyrrverandi starfsmaður WOW á atvinnuleysisskrá. Má áætla að mismunur þeirra sem sóttu um atvinnuleysisbætur og fengu greiddar atvinnuleysisbætur fyrir apríl liggi í þeim hópi sem fékk starf strax eða var í lánshæfu námi. Eftir stendur að 621 starfsmaður hefur enn ekki fundið starf,“ segir í minnisblaðinu.

Gísli Davíð Karlsson, þjónustustjóri hjá Vinnumálastofnun, bendir á að skráning á atvinnuleysi meðal fyrrverandi starfsmanna WOW air gefi ekki fulla mynd af stöðunni eftir gjaldþrotið. „Það eru þarna kannski útlendingar sem fóru beint til síns heima og eru hugsanlega komnir með vinnu.“

Gísli segir starfsmenn Vinnumálastofnunar ekki hafa gert sér sérstaka mynd af því hvernig þróunin yrði hjá hópnum. „Það eru vísbendingar um að það sé að hægjast um í hagkerfinu en þarna eru margir einstaklingar sem standa sterkir að vígi varðandi vinnumarkaðinn – ég held að meginþorri þeirra sé með háskólamenntun. En svo er spurning með framboð af störfum við hæfi.“

Vignir Örn Guðnason, formaður Íslenska flugmannafélagsins – félags flugmanna hjá WOW – var staddur í útlöndum í gær og baðst af þeim sökum undan viðtali um stöðuna í bili. Ekki náðist í Berglindi Hafsteinsdóttur, formann Flugfreyju­félags Íslands. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×