Viðskipti innlent

Undirbúa opið útboð fyrir almenning

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Árni Oddur Þórðarson forstjóri er í viðtali í Markaðnum.
Árni Oddur Þórðarson forstjóri er í viðtali í Markaðnum. Fréttablaðið/Ernir
„Við erum að undirbúa opið útboð á hlutabréfum á Íslandi og Hollandi til almennings og á sama tíma alþjóðlegt útboð til upplýstra fagfjárfesta, þetta er mikil törn en skemmtileg,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel.

Fram undan er hlutafjárútboð og skráning í Euronext-kauphöllina í Amsterdam. Í útboðinu verða boðnar til sölu 100 milljónir nýrra hluta, eða um 15 prósent af útgefnu hlutafé. Í gær var opið hús fyrir almenning sem bauðst að ganga um höfuðstöðvarnar og kynna sér framleiðslu og nýsköpunarstarfsemi fyrirtækisins. Heildartekjur Marel hafa vaxið um 22 prósent á ári frá skráningu félagsins í Kauphöllina á Íslandi árið 1992. Árni Oddur segir vöxtinn munu halda áfram. „Heimurinn er að breytast mjög hratt og virkum neytendum fjölgar um 100 milljónir á ári.“

Krafan sé að matvælaiðnaðurinn bæti nýtingu matvæla og auðlinda.

Árni Oddur er í ítarlegu viðtali í Markaðinum í dag. Hann segir meðal annars frá því að fyrstu tvö árin í starfi forstjóra hafi hann farið gegn eigin gildum við innleiðingu breytinga. „Ég einsetti mér að þetta tímabil myndi vara í mesta lagi í tvö ár og skrifaði sjálfum mér bréf um að fara til baka í þann stjórnunarstíl sem ég trúi á, „bottom-up“ þar sem krafturinn og hugmyndaauðgin í fjöldanum nær að blómstra.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×