Viðskipti innlent

Velta Brauðs & Co jókst um sjötíu prósent

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Umsvif Brauðs & Co stórjukust í fyrra.
Umsvif Brauðs & Co stórjukust í fyrra. Fréttablaðið/Ernir
Sala í súrdeigsbakaríum Brauðs & Co nam ríflega 699 milljónum króna á síðasta ári og jókst um tæp 72 prósent frá fyrra ári þegar hún var um 408 milljónir króna. Brauð & Co hagnaðist um 6,9 milljónir króna í fyrra og dróst hagnaðurinn saman um 17,7 milljónir króna á milli ára, samkvæmt nýlegum ársreikningi félagsins.

Rekstrargjöld félagsins Brauðs og co ehf., sem rekur fimm bakarí á höfuðborgarsvæðinu, voru um 692 milljónir króna í fyrra borið saman við 379 milljónir króna árið áður. Fjöldi ársverka á síðasta ári var 38 en 20,2 árið 2017.



Ágúst Fannar Einþórsson, stofnandi Brauðs & Cofréttablaðið/sigtryggur ari
Eignir Brauðs & Co námu tæplega 233 milljónum króna í lok síðasta árs og var eigið fé félagsins á sama tíma 89 milljónir króna.

Fyrsta bakarí Brauðs & Co var opnað á Frakkastíg í miðbæ Reykjavíkur í byrjun árs 2016. Félagið rekur einnig bakarí í Mathöllinni við Hlemm, í Fákafeni, á Melhaga og við Akrabraut í Garðabæ en þau tvö síðarnefndu voru opnuð í fyrra.

Stærsti hluthafi Brauðs & Co er Eyja fjárfestingafélag, í eigu Birgis Þórs Bieltvedt og Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur, með 53 prósenta hlut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×