Skoðun

Eitt leyfisbréf: Vegið að fagmenntun framhaldsskólakennara

Jakob Bragi Hannesson skrifar

Frumvarp menntamálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur um menntun kennara og eitt leyfisbréf til allra kennara liggur fyrir sem frumvarp til laga á Alþingi og stendur til að afgreiða það á vordögum. Mikil andstaða er meðal framhaldsskólakennara um frumvarpið. Í frumvarpinu er vegið að fagmenntun framhaldsskólakennara og lögverndun starfsins með því að draga úr kröfum til fagþekkingar. Alla jafna hafa framhaldsskólakennarar verið með að lágmarki 120 einingar í sérgrein og auk þess 60 einingar í kennslu-og uppeldisfræði. Þetta jafngildir B.A. prófi. Flestir framhaldsskólakennarar eru þó með M.A. próf í faggrein. Nú skýtur hins vegar skökku við í nýju frumvarpi menntamálaráðherra-, að dregið er úr kröfum um fagþekkingu kennara til kennslu á lægsta þrepi framhaldsskólans. Fram til þessa hefur lágmarkskrafan verið sú að kennari í framhaldsskóla sé með 120 einingar í faggrein, en samkvæmt nýju frumvarpi lækka kröfurnar niður í 90 einingar í faggrein. Góð fagþekking er undirstaða góðrar kennslu. Mikil óvirðing er fólgin í því að halda því fram að minni fagþekkingu þurfi til að kenna nemendum á lægstu þrepum framhaldsskólans. Fyrsta þreps nemendur þurfa ekki síst á vel menntuðum og sérhæfðum starfskröftum á að halda. Við Íslendingar höfum nýverið farið í þá umdeildu kerfisbreytingu að stytta framhaldsskólann úr fjórum árum í þrjú. Reynslan af þeirri kerfisbreytingu er ekki að fullu komin fram en þó má greina mikið álag á nemendur og minna námsframboð og minni sveigjanleika í skólastarfi. Við styttingu framhaldsskólans í þrjú ár, þar sem samþjöppun námsefnis hefur orðið mikil er ennþá meiri þörf á vel menntuðum kennurum og mikilli fagþekkingu.

Ég skora á Alþingismenn að fella þetta frumvarp. Það er ekkert í þessu frumvarpi sem er til hagsbóta fyrir íslenskt menntakerfi. Þvert á móti er verið að draga úr kröfum til fagþekkingar. Það að dregið sé úr  kröfum til fagþekkingar til kennslu í framhaldsskólum er einstakt meðal þeirra samanburðarlanda sem við helst viljum bera okkur saman við.

Höfundur er framhaldsskólakennari og hefur víðtæka kennslureynslu á háskólastigi, framhaldsskólastigi og grunnskólastigi.

Jakob Bragi HannessonAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Skoðun

Afneitun

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.