Viðskipti innlent

Fasteignaverð hér á landi hækkað mest á meðal OECD-ríkja frá 2010

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Tölurnar sýna að frá fyrsta ársfjórðungi 2010 þegar verð fasteigna á Íslandi náði lágmarki hafði verðið hækkað um 67 prósent, mest allra OECD-ríkja.
Tölurnar sýna að frá fyrsta ársfjórðungi 2010 þegar verð fasteigna á Íslandi náði lágmarki hafði verðið hækkað um 67 prósent, mest allra OECD-ríkja. Vísir/vilhelm
Hvergi á meðal ríkja innan Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) hefur fasteignaverð hækkað meira að raunvirði en á Íslandi frá því að það náði lágmarki hér á landi eftir fjármálahrunið. Þetta sýna nýjar hagtölur OECD sem ná fram til fjórða ársfjórðungs síðasta árs.

Tölurnar sýna að frá fyrsta ársfjórðungi 2010 þegar verð fasteigna á Íslandi náði lágmarki hafði verðið hækkað um 67 prósent, mest allra OECD-ríkja. Næst á eftir Íslandi kemur Eistland en fasteignamarkaðurinn þar í landi hækkaði um 51,3 prósent á tímabilinu, síðan Ísrael og Kanada.

Vísitala OECD mælir raunverð. Samkvæmt gögnum stofnunarinnar lækkaði verð íbúðarhúsnæðis á Íslandi um tæplega 36 prósent að raungildi frá því að það fór hæst á fjórða ársfjórðungi 2007 þar til á fyrsta fjórðungi 2010.

„Við sæjum kannski önnur lönd í efsta sæti ef við miðuðum við annan tímapunkt en þetta sýnir engu að síður hversu miklar hækkanir hafa verið á fasteignaverði frá því að markaðurinn var í sem mestri lægð,“ segir Magnús Árni Skúlason, hagfræðingur hjá Reykjavík Economics, í samtali við Markaðinn.

Magnús Árni segir að ástæðan að baki verðhækkuninni sé margþætt. „Það var lítið byggt fyrstu árin eftir hrun og í raun sjáum við ekki töluvert magn koma inn á markaðinn fyrr en árin 2017 og 2018. Það var skortur á fjármagni, bankarnir voru í fyrstu hikandi við að lána verktakafyrirtækjum fyrir uppbyggingu í ljósi reynslunnar og svo voru skipulagsyfirvöld ekki vakandi fyrir þeirri eftirspurnaraukningu sem varð þegar stórir árgangar komu inn á markaðinn,“ segir Magnús. Auk þess hafi erlent vinnuafl aukist verulega í takt við uppgang ferðaþjónustunnar.

Aðspurður um þróun fasteignaverðs næstu missera segir Magnús að það geti oltið á vaxtaákvörðunum Seðlabankans.

„Það er ólíklegt að við sjáum miklar verðhækkanir á næstunni en það er ekki víst að verð lækki, sérstaklega í ljósi yfirlýsingar seðlabankastjóra um að vextir geti mögulega lækkað. Ef vextir lækka er líklegt að fasteignaverð haldist að minnsta kosti óbreytt. Ef þeir lækka ekki er möguleiki á verðlækkun,“ segir Magnús. Þá verði að hafa í huga að það taki tíma fyrir fasteignaverð að lækka þar sem fólk sé tregt til að lækka verð á íbúðum sínum í söluferlinu.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði í lok apríl að áföll og minni spenna í þjóðarbúskapnum sköpuðu að öðru óbreyttu tilefni til að raunvextir Seðlabankans yrðu lægri. Næsta vaxtaákvörðun verður tilkynnt 22. maí. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×