Körfubolti

Bucks með sópinn á lofti

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Giannis átti stórleik í nótt
Giannis átti stórleik í nótt vísir/getty

Milwaukee Bucks sópaði Detroit Pistons í sumarfrí í bandarísku NBA deildinni í körfubolta í nótt. Utah hélt sér á lífi í einvíginu við Houston Rockets.

Milwaukee vann fjórða leik sinn við Detroit í nótt og vann þar með seríuna 4-0. Giannis Antetokounmpo átti stórleik fyrir Bucks og skoraði 41 stig í 127-104 sigrinum.

Með sigrinum komst Bucks í undanúrslit Austurdeildarinnar í fyrsta skipti í átján ár.

Detroit hafði leitt leikinn lengst af þegar Milwaukee fór á 17-3 áhlaup undir lok þriðja leikhluta og komst tíu stigum yfir fyrir loka fjórðunginn. Þar héldu gestirnir áfram að keyra og unnu öruggan sigur.

Milwaukee mætir Boston Celtics í undanúrslitum Austurdeildarinnar en Detroit fer í sumarfrí.
Í Vesturdeildinni frestaði Utah Jazz sumarfríinu, í það minnsta fram á miðvikudagskvöld, með því að vinna Houston Rockets.

Donovan Mitchell steig upp í fjórða leikhluta og leiddi Utah til 107-91 sigurs en 19 af 31 stigi Mitchell kom í fjórða leikhluta.

Jae Crowder var með 23 stig og Ricky Rubio 18 fyrir Utah.

Heimamenn komust í tveggja stafa forskot strax í fyrsta leikhluta þökk sé frábærri skotnýtingu Crowder og Rubio en þeir hittu samtals úr 9 af 11 skotum og skoruðu 25 stig samanlagt í fyrsta leikhluta.

Houston komst aftur inn í leikinn en Jazz byrjaði fjórða leikhluta á 15-1 áhlaupi og tryggði sigurinn.

Staðan í einvíginu er því 3-1 fyrir Houston, en fjóra sigra þarf til að fara áfram.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.