Viðskipti innlent

ORF nælir í forstöðumann hjá Marel

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Elísabet Austmann hefur gengið til liðs við Orf Líftækni.
Elísabet Austmann hefur gengið til liðs við Orf Líftækni.
ORF Líftækni hefur ráðið Elísabetu Austmann til starfa sem framkvæmdastjóra markaðssviðs. Hún starfaði áður hjá Marel en tók til starfa fyrir ORF í byrjun apríl. Meðfram því að leiða markaðsmál fyrirtækisins og vörumerkjauppbyggingu á húðvörulínunni BIOEFFECT mun Elísabet sitja í vöruþróunarráði félagsins.

Greint er frá ráðningu Elísabetar í tilkynningu frá fyrirtækinu þar sem jafnframt er stiklað á stóru í ferli hennar. Elísabet er meðal annars sögð hafa fimmtán ára reynslu af markaðsmálum og vörumerkjastýringu, þar af tólf við að markaðssetja íslenskar vörur eða þjónustu á erlendum mörkuðum.

Þá hefur Elísabet starfað hjá Marel undanfarin átta ár, fyrst sem sýningarstjóri, svo þróunarstjóri hjá Marel í Kaupmannahöfn þar sem hún sá um uppbyggingu og innleiðingu á sýningar- og þjálfunarhúsnæði fyrirtækisins. Hún tók síðan við sem sem forstöðumaður á alþjóðlegu markaðssviði Marels árið 2016 og bar ábyrgð á vörumerkinu Marel og framleiðslu á markaðsefni fyrir fyrirtækið á alþjóðavísu.

Elísabet er alþjóðamarkaðsfræðingur með MBA frá Háskólanum í Reykjavík, en hún bætist nú í hóp þeirra 60 starfsmanna sem þegar starfa hjá ORF Líftækni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×