Umfjöllun og viðtöl: Haukar 28-19 Stjarnan │Þægilegur Haukasigur í Hafnarfirði

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
vísir/bára
Haukar komust í dag í 1-0 í einvígi sínu gegn Stjörnunni. Eftir brösugan fyrri hálfleik sýndu Haukar gæði sín og keyrðu yfir Stjörnuliðið. Lokatölurnar í Schenkerhöllinni, 28-19.

 

Stjörnumenn byrjuðu vel í dag og ætluðu sér að koma á óvart en þeir spiluðu öflugan varnarleik og voru þolinmóðir í sókninni og biðu eftir góðum tækifærum.

 

Þeir skoruðu fyrsta mark leiksins og komust 3-6 áður en Haukarnir náðu að minnka muninn niður í eitt mark. Stjarnan hélt áfram forystunni í einu marki alveg þar til undir lok hálfleiksins þegar Haukarnir náðu í fyrsta sinn að komast yfir í leiknum og leiddu með einu marki þegar liðin gengu til búningsklefanna, 10-9.

 

Í seinni hálfleiknum var aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi enda en Haukar voru fljótir að ná upp nokkurra marka forystu og í stöðunni 16-11 datt allur vindur úr Stjörnunni. 

 

Þeir gerðu sitt besta það sem eftir lifði leiks en það var augljóst að trúin á verkefninu var farin og Haukar sigldu þessu nokkuð örugglega í hús. Þeir náðu að hvíla flest alla byrjunarliðsmenn sína síðustu 10 mínútur leiksins.

 

Þeir unnu að lokum þægilegan sigur, 28-19. 

 

Af hverju unnu Haukar?

 

Haukaliðið er bara með of mikil gæði í sínu liði og þrátt fyrir slakan sóknarleik í fyrri hálfleik þá náði liðið að sýna sitt rétta andlit í seinni hálfleiknum og keyra yfir lið Stjörnunnar.

 

Hverjir stóðu upp úr?

 

Í liði heimamanna var Brynjólfur Snær Brynjólfsson markahæstur með 6 mörk úr 6 skotum, 100% nýting þar. Adam Haukur Baumruk var einnig með 6 mörk en úr 10 skotum. Grétar Ari Guðjónsson markmaður Hauka var þó líklega maður leiksins en hann varði 15 skot eða rétt rúm 52%.

 

Hjá gestunum var Birgir Steinn Jónsson markahæstur með 5 mörk úr 9 skotum en aðrir minna. Sveinbjörn Pétursson og Sigurður Ingiberg vörðu saman 11 bolta.

 

Hvað gekk illa?

 

Sóknarleikur Hauka í fyrri hálfleik var ekki neitt sérstakur en þeir náðu þó að laga það. Hjá Stjörnunni má segja allur seinni hálfleikurinn en eftir fínan fyrri hálfleik fékk liðið á sig 18 mörk í seinni hálfleik og skoraði aðeins 10 mörk í sókninni.

 

Hvað gerist næst?

 

Liðin mætast aftur í TM höllinni næstkomandi mánudag þar sem Stjarnan verður að vinna til að koma einvíginu í oddaleik. Tapi þeir leiknum eru þeir komnir í sumarfrí.

 

Gunni Magg: Vissum að þetta yrði mikil barátta

Gunnar Magnússon þjálfari Hauka var sáttur með sigur sinna manna eftir erfiðan fyrri hálfleik.

 

Hann sagði að munurinn á liðunum hafi verið góð vörn og markvarsla allan leikinn.

 

„Vörnin var góð allan tímann og markvarslan líka en við vorum ekki góðir sóknarlega í fyrri hálfleik og mér fannst við ná hraðaupphlaupunum í seinni hálfleik og sókninni betur.”

 

Gunni sagði að góð vörn Stjörnunnar hefði gert þeim erfitt fyrir í fyrri hálfleik.

 

„Þeir eru með góða vörn og góða markvörslu sem er erfitt að brjóta niður. Við vissum að þetta yrði erfitt og mikil barátta og það kom okkur ekkert á óvart. Þeir spiluðu góða vörn en við gátum samt gert betur.”

 

Það sást snemma í seinni hálfleik að Haukar ætluðu aldrei að tapa þessum leik, Gunni sagði þá aldrei ætla hleypa þeim aftur inn í leikinn eftir að hafa náð forystunni.

 

„Við náum tökum á leiknum snemma í seinni hálfleik og við ætluðum aldrei að hleypa þeim aftur inn í leikinn og við erum ánægðir með hugarfarið hjá strákunum. Bæði hvernig þeir komu inn í leikinn og síðari hálfleikinn. Kláruðum þetta með sæmd.”

 

Gunni var mjög sáttur með frammistöðu Grétars Ara sem var frábær í markinu.

 

„Hann var frábær í dag og það er engin heppni eða tilviljun. Hann er bara góður markmaður og hann fylgdi planinu í dag og ég er mjög ánægður með hann. Andri kom einnig vel inn í leikinn og þeir eru flott par. Vörnin hjálpaði einnig til.”

 

Gunni var sáttur með það að geta hvílt menn þegar lítið var eftir en allir leikmenn Hauka komu við sögu í dag.

 

Gunni sagði að lokum að þeir þurfi betri frammistöðu heldur en í dag ef þeir ætli að klára Stjörnuna á mánudaginn en hann býst við erfiðari leik þá. 

 



Rúnar: Hálfleikurinn fór illa ofan í okkur

Rúnar Sigtryggsson þjálfari Stjörnunnar var svekktur með tap sinna manna eftir fínan fyrri hálfleik. Rúnar sagði að byrjun seinni hálfleiksins sóknarlega hafa gert útslagið í dag.

 

„Við byrjum seinni hálfleikinn sóknarlega ekki nógu vel. Það er of mikið óðagot á okkur og léleg skot, lélega valið í sókninni og við missum boltann alltof oft.”

 

„Það gaf þeim auðveld mörk úr hraðaupphlaupum í staðinn fyrir að við gætum stillt okkur upp í vörninni. Siggi var að verja vel í byrjun seinni hálfleiks og við hefðum átt að nýta okkur það betur en því miður fór hálfleikurinn illa ofan í okkur og við náðum ekki takti í leiknum.”

 

Hann var sáttur með fyrri hálfleikinn og sérstaklega byrjunina á leiknum.

 

„Við erum bara að gera það sem við höfum verið að gera. Við erum bara að verða betri í því. Það þurfa bara allir okkar menn að skila sínum hlutverkum og um leið og það koma sprungur í okkar leik og við náum ekki að sparsla upp í það, þá verður þetta erfitt.”

 

„Mér fannst við gefast full auðveldlega upp eftir að þeir komast í 16-11. Þá fór allur strúktur úr okkar leik og þá vantaði allt bit í varnarleik okkar en sem betur fer telur markatalan ekkert og það er bara næsti leikur og  0-0 á mánudaginn.”

 

Rúnar sagði að það væri alveg klárt að þeir þyrftu að spila betur í 60 mínútur í næsta leik en ekki bara einn góðan hálfleik eins og í dag.

 

„Við þurfum að spila betri leik yfir 60 mínútur, það er alveg klárt. Við þurfum að vera öruggari með okkur sjálfa og hvað við erum að gera. Það er alltof stutt í vandræðin þegar það koma einhverjar misfellur í leik okkar.”

 

„Það breytist kannski ekki á 2 dögum en maður verður að reyna að passa að menn taki þetta ekki inn á sig. Strákarnir hljóta að skilja núna að þeir hafa engu að tapa og við verðum að gefa allt í næsta leik annars erum við komnir í sumarfrí,” sagði Rúnar að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira