Viðskipti innlent

Arion banki vill Svein Andra burt úr þrotabúi WOW vegna vanhæfis

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður.
Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður. Vísir/vilhelm
Arion banki hefur farið fram á að Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður verði settur af sem skiptastjóri þrotabús WOW air. Segir bankinn Svein Andra vanhæfan til starfans.

Greint er frá þessu í nýjasta tölublaði Mannlífs og haft eftir Haraldi Guðna Eiðssyni, forstöðumanni samskiptasviðs Arion banka, að bankinn hafi óskað eftir því að Sveinn Andri verði settur af. Þá staðfestir hann einnig við blaðið að málið tengist ágreiningi bankans við þrotabú tölvufyrirtækisins Data Cell. Sveinn Andri er skiptastjóri í því búi og Arion banki stærsti kröfuhafinn.

Sjá einnig: Segir háa þóknun annars skiptastjórans einsdæmi



Skipun skiptastjóra þrotabús WOW air, þeirra Þorsteins Einarssonar og einkum áðurnefnds Sveins Andra, hefur verið afar umdeild, sérstaklega innan lögmannastéttarinnar. Stjórnir Lögmannafélags Íslands og Félags kvenna í lögmennsku hafa óskað sérstaklega eftir upplýsingum um hvaða verklagsreglur gilda í slíkum tilfellum.

Þá skrifaði Þórður Már Jónsson lögmaður afar harðorðan pistil sem hann birti á Facebook-síðu sinni í byrjun vikunnar þar sem hann sagði Svein Andra fá fleiri þrotabú til skiptanna en aðrir. Þannig rengdi hann Símon Sigvaldason, dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, sem skipaði skiptastjórana. Símon hefur vísað því alfarið á bug að hann hygli Sveini Andra umfram aðra lögmenn við skipun skiptastjóra og þá hafnaði hann því að hann vildi útiloka konur frá slitabúum.

Mannlíf hefur jafnframt eftir Haraldi að málið sé í farvegi og verði ekki rekið frekar í fjölmiðlum. Þá er einnig rætt við Arnar Þór Stefánsson, lögmann hjá LEX lögmannsstofu, sem segir að reynast muni erfitt að koma Sveini Andra frá – mikið þurfi til að skiptastjóri þrotabús sé settur af eftir að hafa verið skipaður.


Tengdar fréttir

Segir háa þóknun annars skiptastjórans einsdæmi

Ólga er meðal lögmanna vegna skipunar skiptastjóra yfir þrotabúi WOW AIR og hyggjast stjórnir Lögmannafélags Íslands og Félags kvenna í lögmennsku óska eftir upplýsingum um hvaða verkalagsregur gilda í slíkum tilfellum. Formaður félags kvenna í lögmennsku segir að þóknun sem annar skiptastjórinn hefur tekið sér fyrir slík verkefni þekkist ekki hjá öðrum lögmönnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×